Segir árásir hersins stríðsglæpi

John Kerry ræddi við fjölmiðla í París í dag.
John Kerry ræddi við fjölmiðla í París í dag. AFP

Vestræn ríki kölluðu í dag eftir friðarviðræðum milli stjórnar Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og uppreisnarmanna til þess að reyna að binda endi á stríðið í landinu. Rúmlega 300.000 manns hafa fallið í stríðinu í Sýrlandi síðan að það hófst í mars 2011.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, fundaði með uppreisnarmönnum í París um helgina. Kallaði hann loftárásir stjórnarhersins og bandamanna þeirra á Aleppo „stríðsglæpi“ og „glæpi gegn mannkyninu“. Kallaði hann jafnframt eftir aðstoð frá bandamönnum Assad, þ.e. þá helst Rússum og Írönum, við að binda endi á sprengjuárásirnar.

Stjórnarherinn hefur herjað á Aleppo upp á síðkastið með aðstoð frá Rússum úr lofti. Vestræn ríki hafa fundað með arabaríkjum og Riad Hijab, fulltrúa uppreisnarmanna.

Þýsk stjórnvöld hafa hvatt stjórnarherinn til þess að leyfa almennum borgurum að flýja Aleppo, sem er í dag að mestu leyti rústir einar. „Við krefjumst þess að stjórnarherinn, en einnig Íran og Rússland, leyfi fólki að yfirgefa átakasvæðið,“ sagði Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert