Sendill bjargaði konu úr prísund

Sendillinn vann hjá fyrirtækinu UPS og brást hárrétt við er …
Sendillinn vann hjá fyrirtækinu UPS og brást hárrétt við er konan rétti honum pakka.

Sendill er sagður hafa unnið hetjudáð er hann kom að björgun konu í Missouri sem hafði verið barin og haldið í gíslingu af eiginmanni sínum í tæpan sólarhring. Sendillinn vinnur hjá flutningafyrirtækinu UPS. 

Lögreglan segir hlut sendilsins í málinu stóran en hann var kallaður að heimili hjónanna til að sækja pakka á þriðjudag. 

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar kom sendillinn að húsi hjónanna að morgni og tók við pakka af konunni. Á honum stóð: „Hafðu samband við neyðarlínuna.“

Sendillinn gerði einmitt það og fljótlega kom lögreglan á vettvang og handtók eiginmanninn. Samkvæmt dómsskjölum neitaði eiginmaðurinn að hleypa konu sinni út af heimilinu. Þá leyfði hann henni ekki að nota síma. Hann barði hana, beindi byssu að höfði hennar og hótaði því að drepa hana. Er hún reyndi að flýja dró hann hana inn í húsið á nýjan leik.

Á meðan á öllu þessu gekk var þriggja ára barn hjónanna læst inni í herbergi án matar og vatns.

Eiginmaðurinn hefur verið ákærður fyrir heimilisofbeldi, frelsissviptingu og að hafa haft ólöglegt vopn í fórum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert