„Enginn veit“ sannleikann um loftslagsbreytingar

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, sagði í samtali við fréttastöðina Fox í dag að „enginn vissi“ hvort loftslagsbreytingar væru raunverulegar. Þá sagðist hann vera að skoða hvort Bandaríkin ættu að draga sig úr loftslagssamkomulaginu sem náðist í París fyrir rúmu ári.

Greint er frá þessu á vef The Washington Post. 

Þó sagðist Trump vera mjög „opinn“ fyrir hugmyndum þess efnis að loftslagsbreytingar væru hafnar en sagðist þó vera með miklar áhyggjur af því hvernig tilraunir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til þess að minnka kolefnisútblástur hafi bitnað á samkeppnishæfni Bandaríkjanna.

Í kosningabaráttu sinni sagði Trump loftslagsbreytingar ekkert nema „blekkingu“ sem Kínverjar bæru ábyrgð á. Sagðist hann síðar hafa verið að grínast.

Í viðtalinu í dag gagnrýndi Trump bandarískar reglugerðir og sagði það skaða efnahag landsins. Sagði hann að í löndum eins og Mexíkó fengju fyrirtæki að byggja verksmiðjur þegar þau vildu en þyrftu ekki að „bíða í tíu ár eftir að fá samþykki“.

„Þau byggja verksmiðju næsta dag eða í næstu viku ef þau vilja. Við getum ekki látið öll þessi leyfi taka heila eilífð því það stöðvar störfin okkar.“

Eftir að dóttir Trump, Ivanka Trump, tengdi þá saman fundaði Trump með leikaranum Leonardo DiCaprio og fyrrverandi varaforsetanum Al Gore. Þeir eru báðir miklir umhverfissinnar sem hafa talað fyrir aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Trump sagði fundina hafa verið góða en vildi ekki tjá sig frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert