Vonast eftir jólakraftaverki

Inni í yfirgefinni vöruskemmu í Belgrad í Serbíu kúra tugir ungmenna saman undir teppum til að verjast kuldanum nú þegar veturinn er genginn í garð. Flest þeirra eru frá Pakistan og Afganistan og hafa komið til Evrópu til að leita vinnu. En í stað þess að finna hana eru þau í tómarúmi þar sem þjóðir Evrópu hafa lokað dyrum sínum fyrir þeim.

„Við bíðum jóladags, kannski þeir opni þá landamærin,“ segir Waseem Afridi, 23 ára Pakistani, sem ætlaði að freista þess að komast inn í ESB og fá vinnu. Nú bíður hann í kuldanum í vöruskemmunni þar sem veggirnir eru litaðir af reyk. 

Flóttamennirnir ylja sér á eldi í tunnu í vörugeymslunni. Stundum …
Flóttamennirnir ylja sér á eldi í tunnu í vörugeymslunni. Stundum frystir á næturnar. AFP

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna segir að um 1.000 flóttamenn séu á vergangi í miðborg Belgrad. Þeir halda flestir til í vöruskemmum á milli aðallestarstöðvarinnar og svæðis þar sem verið er að reisa lúxusíbúðir. Á nóttinni fer hitinn undir frostmark. 

„Það verður kaldara með hverjum deginum sem líður,“ segir Afridi sem flúði heimabæ sinn rétt við landamærin að Afganistan.

Loftið í skemmunni er reykfyllt. Flóttamennirnir kveikja í öllu því sem þeir komast yfir til að halda á sér hita. Séu þeir heppnir hafa þeir fundið teppisbút til að liggja á. Aðrir notast við pappakassa til að sofa ofan á kaldri steypunni.

Flestir í hópnum eru ungir karlmenn, sumir enn á táningsaldri. Þeir vilja ekki fara á skráningarstofur í borginni. 

Serbía hefur verið viðkomustaður hundruð þúsunda flóttamanna sem komið hafa til Evrópu frá Mið-Austurlöndum, Asíu og Afríku frá því í fyrra. Í mars var þessari flóttaleið lokað en flóttamennirnir koma þó þangað enn, oft með aðstoð smyglara. 

Waseem Afridi er 23 ára frá Pakistan. Hann er einn …
Waseem Afridi er 23 ára frá Pakistan. Hann er einn þeirra flóttamanna sem búa í vöruskemmu í Belgrad. AFP

Mohamed Darwich frá Afganistan segist ekki vilja skrá sig því það eina sem þá gerist er að hann verði sendur aftur til Búlgaríu. Þá muni ekkert bíða hans nema að þurfa að borga smyglurunum enn meiri peninga. Hann er sautján ára og hóf flótta sinn fyrir um ári. Flóttinn hefur kostað hann 7.000 evrur, um 830 þúsund krónur. Þær fékk hann með því að selja jörð fjölskyldu sinnar í heimalandinu.

Nokkrir hafa reynt að komast ólöglega til Króatíu eða Ungverjalands sem eru ólíkt Serbíu innan Evrópusambandsins. „Þeir náðu okkur rétt við landamærin. Þeir börðu okkur og sendu okkur svo til baka,“ segir Ihsan Ullah, fimmtán ára Afgani. Hann segir að Serbarnir komi þó vel fram við þá. Helst langar hann að komast til London þar sem frændi hans býr og bíður hans.

Afridi segist hafa flúið undan talibönum. Hann hafi látið bólusetja sig fyrir lömunarveiki og það hafi talibanarnir ekki verið sáttir við.

Hashim Zia-Ulhaq, sem flúði Afganistan ásamt tveimur yngri bræðrum sínum, segist hafa flúið þar sem hann hafi verið sakaður af yfirvöldum um að vinna fyrir vestræna verktaka. Hann hafi ekki getað gert annað en að yfirgefa landið. „Ef ég hefði fundið lausn á vandanum, hefði ég þá yfirgefið eiginkonu mína og fjögurra ára gamlan son minn, föður minn og móður?“ spyr hann.

Mohamed Darwich er á flótta frá Afganistan.
Mohamed Darwich er á flótta frá Afganistan. AFP

Ólíkt Afridi á hann ekki von á jólakraftaverki. „Evrópa er ekki eins og hún var. Þeir voru ekki vanir að koma svona fram við flóttamenn,“ segir hann. Hann segir að í kjölfar hryðjuverkanna í París og Brussel hafi hlutirnir versnað. 

Mohamed Khan, 23 ára Pakistani, er reiður. „Evrópubúar segjast styðja mannréttindi. En hvar eru þessi mannréttindi núna þegar það er komið frost?“ spyr hann. Hann vill ekki segja af hverju hann fór frá Pakistan. „Enginn fer frá heimalandi sínu að ástæðulausu,“ segir hann einfaldlega. 

Hashim Zia-Ulhaq er 25 ára á flótta frá Afganistan.
Hashim Zia-Ulhaq er 25 ára á flótta frá Afganistan. AFP
Aðstæðurnar í vöruskemmunni eru slæmar.
Aðstæðurnar í vöruskemmunni eru slæmar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert