Þrjú ungmenni frömdu sjálfsvíg

Frá Kabúl um helgina.
Frá Kabúl um helgina. AFP

Þrjú ungmenni, sem hafði verið synjað um hæli í Svíþjóð, hafa framið sjálfsvíg á undanförnum vikum en ný útlendingalög þar í landi þýða að ef ungmennum er synjað um hæli þá missa þau rétt á húsnæði og bótum. 

Aftonbladet greinir frá þessu og vísar til ummæla Omid Maoumodi, sem starfar hjá Ensamkommandes förbund. Hann segir að það sé ömurlegt að upplifa þetta.

Varað var mjög við afleiðingum af breyttum útlendingalögum í Svíþjóð sem sett voru í sumar. Samkvæmt þeim missir fólk sem býr í húsnæði ætluðu flóttafólki réttinn til búsetu ef viðkomandi er synjað um hæli. Eins missir fólk, allt niður í 18 ára, rétt á greiðslu fæðispeninga. 

Varað hefur verið við afleiðingum þessa fyrir ungt fólk sem allt í einu er á götunni í ókunnugu landi.

Útlendingastofnun (Migrationsverket) greindi frá því fyrir helgi að hælisleitendur frá Afganistan fái ekki lengur sjálfkrafa synjun heldur verði mál þeirra skoðuð nánar. Er þetta gert með tilliti til slæms ástands í landinu. 

Jafnframt verði þeim sem áður höfðu fengið synjun gefinn kostur á að sækja um að nýju. En alls er um sjö þúsund umsækjendur að ræða. Fyrir einhverja er það hins vegar orðið of seint því á undanförnum sex vikum hafa þrjú ungmenni frá Afganistan, sem eru ein á flótta án fjölskyldu eða annarra aðstandenda, framið sjálfsvíg eftir að hafa verið synjað um hæli í Svíþjóð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert