Duterte játar að hafa drepið fólk

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte.
Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte. AFP

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, segir að hann hafi sjálfur drepið fólk sem var grunað um saknæmt athæfi þegar hann var borgarstjóri í Davao. „Í Davao var ég vanur að gera þetta sjálfur. Bara til að sýna ykkur strákar að ef ég get þetta hvers vegna getið þið það þá ekki,“ sagði Duterte í ræðu sem hann flutti á mánudagskvöldið fyrir kaupsýslumenn. Þar var hann að ræða baráttu sína gegn eiturlyfjasala í landinu en lögregla og aðrir hafa drepið þúsundir íbúa landsins frá því hann varð forseti 30. júní.

Að sögn Duterte var svipað í gangi þegar hann var borgarstjóri í Davao en hann stýrði borginni í tæplega 20 ár. Hann segist hafa ferðast um borgina á mótorhjóli ásamt fleirum þar sem hann leitaði uppi vandræði. „Ég var í fullri alvöru að reyna að lenda í átökum svo ég gæti drepið.“

Duterte segir að það komi ekki til greina að hætta aðgerðum gegn eiturlyfjasölum á Filippseyjum þrátt fyrir óskir Bandaríkjaforseta, Baracks Obama, og mannúðarsamtaka.

Mannréttindasamtök hafa sakað Duterte um að bera ábyrgð á aftökusveitum sem drápu yfir eitt þúsund manns sem voru grunaðir um glæpi. Hingað til hefur hann neitað að hafa vitað um drápin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert