Lést við að byggja snjóvirki

Snjóhaugur. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Snjóhaugur. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Tólf ára drengur lést í Greenwich í New York í dag en hann var að byggja snjóvirki þegar hann varð undir snjóbakka. Yfirvöld segja mögulegt að snjóruðningsmenn hafi óafvitandi losað hundruð kílóa af snjó á hann.

Annar drengur var grafinn lifandi úr snjónum.

Strákarnir voru að leika sér á lóð þar sem snjó er vanalega skilað eftir mokstur, þegar opinberir starfsmenn losuðu snjófarg dagsins.

Að sögn drengsins sem lifði, heyrði hann bakkhljóð í bíl áður en allt varð svart.

Leit hófst þegar drengjanna var saknað en leitarhundur fann sleðann þeirra. Lögreglustjórinn George Bell sagði að leitarmenn hefðu líklega fjarlægt um sjö tonn af snjó á tíu mínútum þegar þeir hófu að grafa eftir strákunum.

Drengurinn sem lést var meðvitundarlaus þegar hann fannst. Lífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann lýstur látinn á Saratoga-sjúkrahúsinu.

Í frétt Washington Post er rifjað upp annað atvik þar sem dauðsfall varð af völdum snjómoksturs. Þá lést hinn 56 ára David Perrotto í bifreið sinni, eftir að snjómokstursvél gróf snjó yfir bílinn og útblástursrörið. Bifreiðin var í gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert