Trump gerir sig að athlægi

Trump heldur ræðu á sérstakri þakkarferð um Bandaríkin í vikunni.
Trump heldur ræðu á sérstakri þakkarferð um Bandaríkin í vikunni. AFP

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, fékk mikla athygli – en þó ekki þá sem hann ætlaðist til – eftir að hann tísti í dag um að Kína hefði handsamað ómannað neðansjávarfar bandaríska sjóhersins.

Varð Trump á í messunni þegar hann hugðist segja að verknaðurinn væri fordæmalaus (e. unprecedented). Skrifaði hann þess í stað „unpresidented“, orð sem ekki er til en virðist óviljandi samansett úr áðurnefndu hugtaki og orðinu forseti (e. president).

Þetta nýja orð var ekki lengi að öðlast vinsældir á Twitter vestanhafs, þar sem margir nýttu tækifærið og hreinlega tættu forsetann í sig fyrir þessa óheppilegu villu.

Trump eyddi tístinu eftir um klukkustund og gaf þess í stað út nýtt tíst þar sem notast var við rétt orð. En skaðinn var skeður, og jafnvel orðabók Merriam-Webster gat ekki látið tækifærið fram hjá sér fara.

Komu Trump til varnar

Stuðningsmenn Trumps komu þó margir honum til varnar og sögðu að fólk beindi athygli sinni of mikið að villunni, og hunsaði um leið vandann sem við blasi.

Trump var enda að vísa til þess þegar kínversk yfirvöld handsömuðu á fimmtudag ómannað neðansjávarfar Bandaríkjahers, á alþjóðlegu hafsvæði í Suður-Kínahafi, sem er alvarleg ögrun við Bandaríkin á sama tíma og vaxandi spenna er á milli landanna tveggja.

Trump er sagður hafa reitt stjórnvöld í Peking til reiði undanfarnar vikur, þar sem hann hefur meðal annars látið í ljós efasemdir um stefnu Bandaríkjanna varðandi Taívan, kallað Kína peningabraskara og hótað að leggja sérstök innflutningsgjöld á kínverskar vörur.

Löndin við Suður-Kínahaf keppast um að stækka eyjur sínar til …
Löndin við Suður-Kínahaf keppast um að stækka eyjur sínar til að styrkja kröfur til hafsvæðisins. AFP

Ein fjölfarnasta skipaleið veraldar

Bæði Kína og Bandaríkin hafa staðfest að farinu verði skilað, án þess þó að gefa upp nánari upplýsingar.

En varnarmálaráðuneyti Kína hefur sakað banda­rísk stjórnvöld um að gera of mikið úr því að kín­versk­ir sjó­liðar hafi lagt hald á hið ómannaða far.

Frétt mbl.is: Segja Bandaríkin gera mikið úr atvikinu

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna kallaði í gær eftir því að Kína myndi þegar í stað skila farinu, sem það hefði gripið í trássi við alþjóðalög.

Sífellt aukin spenna er nú í Suður-Kínahafi, þar sem Kína hefur í bókstaflegum skilningi reynt að renna stoðum undir kröfur sínar til hafsvæðisins, með því að breyta ýmsum smáeyjum og sandrifjum svo úr verði mun stærri eyjar.

Brúnei, Malasía, Filippseyjar og Víetnam hafa öll gagnstæðar kröfur um hafsvæðið, sem hefur að geyma eina fjölförnustu skipaleið veraldar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert