150 teknir af lífi í Sádi-Arabíu

Maður á göngu í Awamiya í austurhluta Sádi-Arabíu.
Maður á göngu í Awamiya í austurhluta Sádi-Arabíu. AFP

Að minnsta kosti 150 verða teknir af lífi í Sádi-Arabíu á þessu ári, samkvæmt mannréttindasamtökunum Reprieve. Samtökin segja það hafa færst í aukana að leynilegir dómstólar séu notaðir til að dæma fíkniefnabrotamenn, ungmenni og pólitíska fanga til dauða.

Dauðarefsingin er enn við lýði í mörgum ríkjum við Persaflóa en menn hafa áhyggjur af því að aftökur séu að verða „eðlilegar“ og reglubundnar. 150 hafa þegar verið teknir af lífi í Sádi-Arabíu á þessu ári, eilítið færri en í fyrra þegar 158 voru teknir af lífi, en mun fleiri en árið 2014 þegar 87 voru líflátnir.

Samkvæmt Reprieve er ekkert ríki við Persaflóa sem tekur jafnmarga af lífi og Sádi-Arabía en samtökin benda á að stjórnvöld í Kúveit hafi nýlega lækkað þann aldur sem miða skal við við ákvörðun dauðarefsingar.

Þá segja samtökin að margir þeir sem hafa verið líflátnir hafi verið dæmdir fyrir leynilegum dómstólum, m.a. pólitískir fangar. Fjöldi hafi einnig verið pyntaður til að knýja fram játningar.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert