Halda drengjum í kynlífsánauð

Skjálfandi af reiði réttir Shirin upp mynd af mági sínum á unglingsaldri sem er kynlífsleikfang lögreglumanns. Hann er fórnarlamb hryllilegrar hefðar sem fer eins og farsótt um Afganistan. Ungum drengjum sem er rænt og haldið í kynlífsánauð af yfirmönnum í hernum og lögreglu.

AFP-fréttastofan ræddi við fulltrúa 13 fjölskyldna í þremur afgönskum héruðum sem hafa orðið fyrir því að börnum þeirra hafi verið rænt og þau seld í „bacha bazi“ eða barnaníðsþrælkun til sérsveitarmanna í lögreglunni sem njóta verndar vestrænna herja. 

Mjög sjaldgæft er að fólk tali opinberlega um barnsránin enda þykir þetta mikil skömm á sama tíma og fjölskyldurnar reyna að frelsa börn sín úr ánauð. 

Shirin lýsir því fyrir fréttamanni AFP hvernig mágur hans, 13 ára gamall, hafi æpt og veinað þegar hann var tekinn af heimili sínu fyrr á árinu af lögregluforingja í Helmand-héraði. 

„Þegar ég grátbað um að hann yrði látinn laus beindu menn lögregluforingjans byssum að mér og sögðu: Viltu að fjölskyldan þín deyi? Gleymdu stráknum,“ segir Shirin. 

Hann segir að drengjunum sé rænt fyrir opnum tjöldum og að allir viti að þeir verði fyrir nauðgunum og öðru ofbeldi af hálfu kvalara sinna. „Hvert eigum við að leita eftir hjálp? Til talibana?“

Drengjunum er yfirleitt rænt af heimilum sínum um miðjan dag, eða af ópíumekrum þar sem þeir starfa og leikvöllum. Farið er með þá í varðstöðvar lögreglunnar og er nánast ómögulegt að rekja slóð þeirra.

Faðir eins drengs sem var rænt, Sardarwali, rakst á son sinn eftir margra mánaða leit. Hann sá son sinn á markaði í Helmand héraði en komst ekki að honum vegna allra lögreglumannanna allt í kring. „Ég horfði á hann hverfa á brott,“ segir Sardarwali við AFP.

Mjög erfitt er að fá drengina heim aftur og margir þeirra verða háðir deyfilyfjum sem þeim eru gefin af kvölurum sínum. Eða eins og ein fjölskylda sem AFP-fréttastofan ræddi við upplifði, sonur þeirra var drepinn í árás sem gerð var á varðstöð þar sem honum var haldið sem kynlífsleikfangi.

Bacha bazi er hefð sem hefur vaxið ásmegin eftir að talibanar misstu völdin í Afganistan. Sumir þeirra hafa leitað til talibana um hjálp og heitið talibönum aðstoð og stuðningi fái þeir að sleppa úr prísundinni.  

Þrátt fyrir að yfirvöld í Afganistan neiti því að barnaníð viðgangist innan lögreglunnar eru ekki allir sem reyna að þegja um þetta. Til að mynda segir talsmaður stjórnvalda í Uruzgan,  Dost Mohammad Nayab, að á nánast öllum lögreglustöðvum sé drengjum haldið í kynlífsánauð.

Sardar Hamdard, aðgerðarsinni í Helmand-héraði, segir að þessi hefð sé að fara með samfélagið í Afgansitan. Afgönsk börn alist upp við að það þyki sjálfsagður hlutur að ræna börnum og misnota. 

Fæstir drengjanna komast aftur heim til fjölskyldunnar en nokkrir hafa verið svo heppnir. Tveimur vikum eftir að 11 ára gömlum syni Haji Mohammad var rænt af herforingja í Helmand sneri Mohammad sér til yfirmanns í leyniþjónustunni sem hann þekkti og bað um hjálp. Hann sagði við leyniþjónustumanninn að ef drengurinn yrði ekki kominn heim innan þriggja daga myndi það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Drengurinn var látinn laus eftir 18 daga í haldi og kom haltrandi heim skelfingu lostinn. Fjölskylda Mohammads fékk aðstoð fyrir drenginn hjá geðlækni en hann glímir enn við áfallastreituröskun tveimur árum eftir að honum var rænt. Faðir hans segir að það muni taka mörg ár fyrir drenginn að jafna sig. Hann sé í raun lifandi dauður eftir vistina hjá kvalara sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert