Væntanlega hryðjuverkaárás

AFP

Lögreglan í Berlín segir að væntanlega hafi verið um hryðjuverkaárás að ræða þegar flutningabíl var ekið inn í mannmergð á jólamarkaði í gær. Tólf eru látnir og tugir særðir.

Þýska lögreglan er með mann í haldi sem grunaður er um að hafa ekið flutningabílnum inn á jólamarkaðinn. Maðurinn er annaðhvort afganskur eða pakistanskur hælisleitandi, samkvæmt heimildum DPA-fréttastofunnar innan úr leyniþjónustu landsins.

BBC greinir frá því að maðurinn kom til Þýskalands í febrúar sem flóttamaður. Dagblaðið Tagesspiegel segir að maðurinn hafi verið þekktur af lögreglu fyrir minni háttar brot en ekki fyrir tengsl við hryðjuverkasamtök.

Þýskir stjórnmálamenn hafa forðast það að tala um hryðjuverkaárás en innanríkisráðherra Þýskalands, Thomas de Maiziere, segir í viðtali við ARD-sjónvarpsstöðina að það sé margt sem bendi í eina átt. Lögreglan í Berlín er hins vegar sannfærð um að um hryðjuverk sé að ræða. 

Eins og áður sagði létust tólf en 48 særðust. Árásin var gerð á jólamarkað á Breitscheidplatz, skammt frá Kurfuerstendamm, aðalverslunargötu borgarinnar. Markaðurinn stendur í skugga Kaiser Wilhelm-minningarkirkjunnar sem skemmdist í loftárásum í seinni heimsstyrjöldinni og er tákn fyrir frið meðal Berlínarbúa.

Flutningabílnum, sem var hlaðinn stálbitum, var ekið inn á markaðinn á háannatíma eða um klukkan 20 að staðartíma, 19 að íslenskum tíma. Flutningabíllinn er skráður í Póllandi og fannst látinn Pólverji í farþegasæti hans. Eigandi flutningafyrirtækisins hefur staðfest að ökumannsins sé saknað. Hann er 37 ára og var að flytja stálbitana frá Ítalíu til Berlínar.

„Við höfum ekki heyrt frá honum síðan síðdegis. Við vitum ekki hvað hefur komið fyrir hann en hann er frændi minn. Ég hef þekkt hann síðan ég var barn og ég get ábyrgst hann,“ segir eigandi flutningafyrirtækisins, Ariel Zurawski, í samtali við AFP.

Sá sem talinn er hafa ekið bílnum var handtekinn á flótta, um 2 km frá þeim stað sem árásin var gerð. 

Að sögn lögreglu er talið að bifreiðinni hafi verið ekið vísvitandi inn í mannfjöldann og að blóðbaðið væri að öllum líkindum hryðjuverkaárás. Einn þeirra sem lifði árásina af, Trisha O'Neill, ferðamaður frá Ástralíu, var aðeins nokkrum metrum frá þeim stað sem flutningabílnum var ekið yfir fólkið.

„Ég heyrði ópin og síðan frusum við öll. Allt í einu byrjaði fólk að hreyfa sig og lyfta brakinu af fólki. Reyndu að hjálpa þeim sem þar voru,“ segir hún í viðtali við ástralska sjónvarpið. Hún segir að það hafi verið blóð og lík út um allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert