Hættir við tónleika í mótmælaskyni

James Taylor.
James Taylor. AFP

Grammy verðlaunahafinn James Taylor hefur aflýst tónleikum sem hann ætlaði að halda á Filippseyjum í febrúar. Ástæðan eru dráp án dóms og laga að beiðni forseta landsins, Rodrigo Duterte. Morðin eru liður í stríði forsetans við eiturlyfjasala. 

„Ég held að tónlist mín sé ekkert sérstaklega pólitísk en stundum verður maður að taka pólitíska afstöðu,“ segir bandaríski söngvarinn á samfélagsmiðlum.

Taylor segir það sjálfsagt að saksækja og refsa þeim sem beri ábyrgð á ólöglegum viðskiptum með fíkniefni en það verði ekki gert án dóms og laga. Eiturlyfjavandinn sé alvarlegt vandamál alls staðar í heiminum en aftökur án dóms og laga séu grafalvarlegar og óásættanlegar í huga allra sem trúa á réttarríkið.

Barack Obama syngur hér Jingle Bells ásamt Marc Anthony, James …
Barack Obama syngur hér Jingle Bells ásamt Marc Anthony, James Taylor, Trisha Yearwood, Garth Brooks og Eva Longoria AFP

Duterte var kjörinn forseti fyrr á árinu og nýtur mikilla ekki síst vegna loforða um að hafa hendur í hári 100 þúsund fíkniefnasala.

Lögreglan á Filippseyjum er grunuð um að hafa drepið yfir 5.300 manns síðan í júlí en ríkisstjórn landsins neitar ásökunum um aftökur án dóms og laga. Hún heldur því fram að þeir sem hafi verið skotnir til bana af lögreglu hafi streist á móti þegar átti að handtaka þá og barist gegn lögreglu.

Taylor, sem er 68 ára gamall, varð mjög vinsæll á áttunda áratug síðustu aldar fyrir texta og söng en hann hefur hlotið fimm Grammy verðlaun á ferlinum. Meðal þekktra laga hans eru „Fire and Rain“ og „You've Got a Friend“.

Í viðtölum á undanförnum árum hefur hann greint frá baráttu sinni við heróínfíkn sem hann glímdi við á sínum yngri árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert