Ber breska herinn saman við nasista

Vladimír Pútín Rússlandsforseti ásamt varnarmálaráðherranum, sem er fjórði frá vinstri …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti ásamt varnarmálaráðherranum, sem er fjórði frá vinstri á myndinni, og herráði Rússlands. AFP

Varnarmálaráðherra Rússlands hefur sakað breska herinn um að notast við rússnesk merki til að merkja óvininn á heræfingum, aðferð sem hann segir Þýskaland nasista hafa notað á meðan síðari heimsstyrjöldin stóð yfir.

Ráðherrann, Sergei Shoigu, segir að breskir hermenn við æfingastöðina Salisbury Plain í Englandi hafi byrjað að nota skriðdreka, framleidda í Rússlandi, og búninga rússneska hersins til að merkja óvininn.

„Síðast þegar þessi aðferð var notuð, var það Þýskaland nasista í seinni heimsstyrjöldinni,“ sagði Shoigu, samkvæmt eftirriti sem birt er á vefsíðu ráðuneytis hans.

Bætir hann við að Atlantshafsbandalagið hafi tvöfaldað tíðni heræfinga sinna að undanförnu, og að meirihluta þeirra væri beint að Rússum.

„NATO hefur lýst því yfir að Rússland sé helsta ógnin, og heldur áfram að byggja upp hernaðarkost sinn við landamæri okkar.“

Ógn sem sé ekki raunveruleg

Samband NATO og Rússlands hefur heldur súrnað eftir að Kremlverjar ákváðu að innlima Krímskagann frá Úkraínu í mars árið 2014. Ýmis lönd Austur-Evrópu hafa þá lýst áhyggjum sínum yfir því að þau gætu orðið skotmörk árásar frá Rússum.

NATO lofaði á fundi í Varsjá í júlí að efla herstyrk sinn í austurhluta álfunnar, til að vinna gegn endurvöknuðu Rússlandi. Samþykkti bandalagið að senda fjórar herdeildir til Póllands og Eystrasaltsríkjanna.

Stjórnvöld í Moskvu fordæmdu ákvörðunina og sökuðu NATO um að vinna gegn ógn sem ekki væri raunveruleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert