Sást Amri í Danmörku?

AFP

Viðamiklar aðgerðir hafa verið í gangi hjá dönsku lögreglunni frá því í gærkvöldi eftir að vitni hafði samband og taldi sig hafa séð Anis Amri, sem er grunaður um hryðjuverk í Berlín, við höfnina í Grenaa. 

Um svipað leyti fékk lögreglan á Austur-Jótlandi aðrar upplýsingar sem bentu í sömu átt, segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni. Því hafi lögreglan verið með mikinn viðbúnað við höfnina í gærkvöldi og nótt, segir í frétt Berlingske.

Fjölmargir lögreglumenn eru á svæðinu, leitarhundar og eins eru þyrlur á sveimi yfir hafnarsvæðinu. Ferja Stena Line, sem átti að láta úr höfn frá Grenaa til Svíþjóðar klukkan 1 í nótt var rannsökuð hátt og lágt af lögreglu, leitað í bílum og allir farþegar beðnir um skilríki. 

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni kemur fram að nú í morgunsárið er ekkert sem bendir til þess að maðurinn sem leitað er að vegna árásarinnar í Berlín sé á hafnarsvæðinu í Grenaa. 

Bætt við klukkan 8:30 að loknum blaðamannafundi lögreglunnar

Klaus Arboe Rasmussen, yfirlögregluþjónn á Austur-Jótlandi fór yfir málið með fjölmiðlum í morgun. Hann segir að klukkan 22:30 hafi maður, sem var úti að ganga með hund sinn, haft samband við lögreglu sannfærður um að hann hafi sé Amri á hafnarsvæðinu. Lögreglan ákvað að taka tilkynninguna alvarlega þar sem upplýsingar þar að lútandi höfðu borist. 

Að sögn Rasmussen fór lögreglan til  Grenaa og hafði leitarhunda með. Eins var þyrla fengin til þess að sveima yfir svæðið. Leitað var í ferju sem átti að fara í nótt frá Grenaa til Varberg, leitað í öllum bílum og farþegar stöðvaðir. Undir morgun var komist að þeirri niðurstöðu að Amri hafi ekki verið á svæðinu en þrátt fyrir það er lögreglan enn á svæðinu. 

 Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert