Carrie Fisher á gjörgæslu eftir hjartaáfall

Carrie Fisher fékk hjartaáfall um borð í flugvél á leiðinni …
Carrie Fisher fékk hjartaáfall um borð í flugvél á leiðinni til Los Angeles.

Bandaríska leikkonan Carrie Fisher, sem er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt sem Lilja prinsessa í upprunalegu Star Wars myndunum, er nú á gjörgæslu eftir að hafa fengið hjartaáfall um borð í flugvél.

Fréttavefur LA Times segir Fisher hafa farið í hjartastopp á flugleiðinni milli London og Los Angeles. Farþegar um borð í vélinni komu leikkonunni til hjálpar og beittu hjartahnoði. Farið var síðan með hana í flýti á sjúkrahús um leið og flugvélin lenti í Los Angeles að sögn vefjarins TMZ.

Fisher, sem er sextug, var á ferðalagi að kynna nýjustu bók sína The Princess Diarist.

Er hún sögð hafa fengið hjartaáfallið korteri áður en vélin lenti í Los Angeles, um klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma, og veitti læknir sem var meðal farþega henni hjartahnoð.

Flugfélagið United Airlines sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem fram kemur að sjúkrabíll hafi beðið flugs 935 frá London til Los Angeles eftir að flugáhöfn greindi frá því að einn farþeganna væri meðvitundarlaus. Fisher var ekki nefnd á nafn í yfirlýsingunni.

Sjúkraliðar eru sagðir hafa sett Fisher í öndunarvél og hafði NBC sjónvarpsstöðin eftir heimildarmanni innan lögreglunnar að ástand hennar væri „ekki gott“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert