Drottningin fer ekki í messu

Drottningin varð níræð fyrr á árinu.
Drottningin varð níræð fyrr á árinu. AFP

Elísabet Englandsdrottning mun ekki mæta í jóladagsmessu í dag vegna veikinda. Þetta er í fyrsta skiptið í næstum því þrjátíu ár sem drottningin fer ekki til messu 25. desember í kirkjunni í Sandringham í Norfolk. 

Sagt er frá þessu á vef The Guardian. 

Mörg hundruð manns höfðu safnast saman fyrir utan kirkjuna í morgun til þess að sjá drottninguna. Sumir höfðu komið í nótt.

Buchkingham-höll staðfesti það í morgun að drottningin myndi ekki sækja messuna. „Drottningin er enn þá að jafna sig á miklu kvefi og mun vera inni til þess að sjá til þess að henni batni,“ sagði í stuttri tilkynningu frá höllinni. „Drottningin tekur þátt í hefðbundnum jólafögnuði konungsfjölskyldunnar í dag.“

Drottningin og Filippus prins þurftu að ferðast með þyrlu til heimilis þeirra í Sandringham á fimmtudaginn þar sem að þau voru bæði of slöpp til þess að fara með lest.

Í síðustu viku var greint frá því að skyldum drottningarinnar yrði fækkað töluvert en þá hvarf hún frá hlutverki sínu sem verndari 25 breskra samtaka. Elísabet, sem varð níræð á árinu, og hinn 95 ára gamli Filippus tóku á móti gestum í Buckingham-höll á þriðjudaginn þar sem árlegur jólahádegisverður fór fram.

Klukkan þrjú í dag verður jólaávarp drottningarinnar flutt í sjónvarpi en það var tekið upp áður en hún veiktist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert