Fresta veitingu byggingaleyfa í landtökubyggðum

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels er sagður hafa óskað eftir að …
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels er sagður hafa óskað eftir að veitingu byggingaleifanna væri frestað. AFP

Skipulags- og húsnæðisnefnd Jerúsalem frestaði í dag veitingu leyfa fyrir byggingu hunduð nýrra heimila í landtökubyggðum. Ísraelsk stjórnvöld samþykktu fyrr í vikunni að reisa þúsundir slíkra heimila í borginni, þvert á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðarinnar sl. föstudag um að Ísraelar hætti þegar í stað að koma upp landtökubyggðum á palestínsku landi.

Fréttastofa Reuters hefur eftir Hanan Rubin, sem á sæti í skipulagsnefndinni, að beiðni um að fresta leyfisveitingunni hafi borist frá Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra landsins.

Sagði Rubin ákvörðunina tekna til að forðast að auka álag á samskipti Ísraelsríkis og bandarískra stjórnvalda að sinni, en John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna á að flytja ræðu síðar í dag um málefni Ísraels og Palestínu.

Frétt mbl.is: Ísraelar beiti ríkin eigin refsiaðgerðum

Samtökin Ir Amim sem fylgjast með framkvæmdum í landtökubyggðum, greindu frá því í dag að byggingaleyfin hefðu verið tekið af dagskrá.  AFP-fréttastofan hafði í gær haft eftir Meir Turjeman, fulltrúa borgarstjóra Jerúsalem sem fer fyrir nefndinni, að engar áætlanir væru uppi um að hætta við fundinn vegna ályktunar Öryggisráðsins.

Ir Amim segir skipulagsnefndina hafa átt að taka fyrir byggingaleyfi vegna 618 heimila í austurhluta borgarinnar, sem í dag er að mestu byggð Palestínumönnum. Segja samtökin hægt að taka byggingaleyfin til umræðu hvenær sem er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert