Meta hugsanlegan skaða af Trump

Donald Trump er ekki líklegur til að halda loftslagsaðgerðum Barack …
Donald Trump er ekki líklegur til að halda loftslagsaðgerðum Barack Obama áfram þegar hann verður forseti. AFP

Vísindamenn hafa verulegar áhyggjur af því hvaða áhrif kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna mun hafa á baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Nokkrir þeirra hafa nú áætlað hvernig mögulegt aðgerðaleysi Bandaríkjamanna undir Trump hefði áhrif á þróun hnattræns meðalhita í framtíðinni.

Trump hefur raðað afneiturum loftslagsvísinda í ráðuneyti sitt en sjálfur hefur hann sagt loftslagsbreytingar vera kínverskt „gabb“. Eins hefur hann lofað að endurlífga kolaiðnaðinn í Bandaríkjunum sem repúblikanar fullyrða að Barack Obama fráfarandi forseti hafi háð „stríð“ gegn en kol eru talin versti mengunarvaldurinn þegar kemur að gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum.

Eins og gefur að skilja hefur afstaða Trump og þeirra sem hann hefur raðað í kringum sig vakið áhyggjur af því að ríkisstjórn hans muni hætta aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að styrkja þróun endurnýjanlegra orkugjafa.

Markmiðið um 2°C hlýnun fjarlægðist

Í grein sem birtist í tímaritinu Nature Climate Change á öðrum degi jóla reyna Benjamin Sanderson frá Lofthjúpsrannsóknamiðstöð Bandaríkjanna og Reto Knutti frá ETH-tækniháskólanum í Zürich að reikna út hvað slík stefnubreyting bandarískra stjórnvalda hefði í för með sér fyrir loftslag jarðar.

Þeir komast að þeirri niðurstöðu að ef Bandaríkin fresta loftslagsaðgerðum sínum í átta ár og losun þeirra helst stöðug þá hafi það eitt og sér ekki of mikil áhrif á jörðina, jafnvel þó að Bandaríkin séu annar stærsti losari gróðurhúsalofttegunda í heiminum á eftir Kína.

Leiði fordæmi Trump hins vegar til þess að aðrar þjóðir gefi loftslagsaðgerðir upp á bátinn gæti það leitt til þess að losun gróðurhúsalofttegunda verði 350 milljörðum tonna meiri en ella. Það ylli 0,25°C hlýnun og drægi verulega úr möguleikum manna á að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C sem er markmið Parísarsamkomulagsins.

Áhrifin yrðu enn verri ef Bandaríkin ykju losun sína og hættu að stuðla að þróun endurnýjanlegra orkugjafa sem drægi úr áhuga annarra ríkja á tækninni. Þá fjarlægðist 2°C-markmiðið enn frekar.

„Niðurstaðan er að jafnvel mjög stutt töf á hnattrænum aðgerðum hefði verulega miklar afleiðingar fyrir getuna til að ná þessum metnaðarfullu markmiðum, jafnvel með hnattrænt skipulögðum og metnaðarfullum aðgerðum aðgerðum eftir árið 2025,“ segir Sanderson við Washington Post.

Mikilli óvissu háð

Höfundar greinarinnar vara við því að taka hana of bókstaflega enda séu ályktanir þeirra háðar mikilli óvissu. Enn liggi ekki fyrir hver stefna Trump verði né hvernig leiðtogar annarra ríkja bregðist við henni.

Þótt hugsanlegt sé að aðrar þjóðir verði síður viljugar til þess að halda áfram með loftslagsaðgerðir sínar ef Bandaríkin ganga úr skaftinu en það fjarri því sjálfgefið að þær muni hætta við metnaðarfull áform um að draga úr losun.

Eins er uppgangurinn í endurnýjanlegum orkugjöfum eins og sólar- og vindorku slíkur að ólíklegt er að áhugaleysi bandarískra stjórnvalda um þá drægi úr metnaði annarra ríkja á því sviði. Eins og Chris Mooney, blaðamaður Washington Post, bendir á yrðu áhrifin líklegar þau að dragi bandarísk stjórnvöld sig út úr þróun endurnýjanlegra orkugjafa næðu aðrar þjóðir eins og Kínverjar og Þjóðverjar forskoti í samkeppni á þeim markaði.

Umfjöllun Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert