Elsta karlkyns panda í heimi látin

Myndin er tekinn af Pan Pan á 30 ára afmælisdegi …
Myndin er tekinn af Pan Pan á 30 ára afmælisdegi hans, 21. september 2015, áður en hann greindist með krabbamein. /AFP

Pan Pan, elsta karlkyns panda í heiminum er fallin frá. Pan Pan lést í Kína 31 árs að aldri, aðeins sex mánuðum eftir að hafa verið greindur með krabbamein. Afkomendur Pan Pan eru yfir 130 talsins eða sem nemur um fjórðungi allra panda í heiminum sem eru í umsjá manna.

Pan Pan fæddist í Sichuan í Kína og var fangaður þegar hann var aðeins nokkurra mánaða gamall. Hann lést að morgni miðvikudags í Dujiangyan-búðunum þar sem hann var í umsjá kínversks rannsóknarseturs um pandabirni.

Elsta kvenkyns panda sem vitað er um er hin 36 ára gamla Basi sem einnig býr í Kína en hún hefur verið elst allra kvenpanda síðan Jia Jia lést í Hong Kong í október, þá 38 ára að aldri. Lífaldur villtra panda er um 20 ár sem er talsvert styttra en æviskeið þeirra sem lifa í umsjá manna.

„Hetju-faðir“ fallinn frá

Nafn Pan Pan merkir „von“ eða „væntingar“ og þykir fráfall hans miklar sorglegarfréttir en honum hefur verið lýst sem sannkölluðum „hetju-föður" panda. Umsjónamenn segja hann hafa hætt að borða og hreyfa sig og svo misst meðvitund en heilsu hans hrakaði hratt síðustu þrjá dagana áður en hann lést.

Alþjóðleg náttúruverndarsamtök lýstu því yfir í september að stöðu pöndustofnsins hafi verið breytt úr „í hættu" yfir í „viðkvæmt“ þar sem pöndum fer fjölgandi. Samkvæmt nýjustu tölum í Kína er stofninn sagður telja um 1.864 fullorðin dýr og samkvæmt yfirvöldum þar í landi eru 422 þeirra í umsjá manna.

Náttúruverndarsamtökin IUCN óttast að með loftslagsbreytingum sé hætt við því að meira en þriðjungur híbýla pandabjarna, þar sem vex bambus, muni þurrkast út á næstu 80 árum. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert