Boðar tilraunir með langdrægar eldflaugar

Kim Jong-un ávarpaði landsmenn í sjónvarpsávarpi.
Kim Jong-un ávarpaði landsmenn í sjónvarpsávarpi. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, segir að ríkið muni brátt geta gert tilraunir með langdrægar eldflaugar sem geti flutt kjarnaodda. Hann greindi frá þessu í nýársávarpi sínu og sagði að þróun slíkra eldflauga væri komin á lokastig.

Stjórnvöld í Pjongjang gerðu tvær kjarnorkutilraunir á síðasta ári, þar á meðal þá stærstu sem þarlend stjórnvöld hafa nokkru sinni framkvæmt. 

Menn óttast að Norður-Kóreumenn hafi náð miklum árangri hvað varðar þróun í kjarnorkumálum. Fram kemur á vef BBC, að þeim hafi aftur á móti aldrei tekist að skjóta langdrægri eldflaug á loft.

Fréttastofa Reuters hefur eftir hátt settum embættismanni innan Bandaríkjahers, að þrátt fyrir að N-Kórea virðist geta sett lítinn kjarnaodd á slíka eldflaug, þá eigi þeir enn töluvert langt í land með að ná að þróa eldflaug sem hægt sé að skjóta mjög langt. 

Kim tók við völdum í Norður-Kóreu eftir andlát föður síns árið 2011. Hann greindi frá stöðunni í kjarnorkumálum í sjónvarpsávarpi. Þar sagði hann að N-Kórea væri nú herveldi í austri sem jafnvel sterkustu andstæðingar geti ekki hróflað við. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir því að stjórnvöld í N-Kóreu láti af kjarnorku- og eldflaugatilraunum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert