Lögreglan sökuð um rasisma

AFP
Leiðtogi Græningja í Þýskalandi gagnrýnir lögregluna í Köln harðlega í dag fyrir að nota orðið „nafri“ um fólk frá Norður-Afríku í Twitter-færslum um áramót. Mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni í borginni um áramótin til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig frá því í fyrra þegar fleiri hundruð tilkynningar bárust um kynferðislega áreitni og ofbeldi á nýársnótt. 
Lögreglan neitar ásökunum um rasisma þegar kemur að skráningu og upplýsingagjöf og segir að orðið nafri hafi verið notað vegna þess hvað Twitter gefi færi á fáum bókstöfum eða aðeins 140 talsins í færslu.

Yfir tvö þúsund lögreglumenn voru á vakt í Köln um áramótin sem eru tíu sinnum fleiri en í fyrra þegar hundruð kvenna voru áreittar og rændar. Í flestum tilvikum var mönnum lýst sem þeir væru arabar eða af norðurafrískum uppruna.

AFP

Lögreglan beindi í ár einkum sjónum sínum af körlum frá Norður-Afríku sem söfnuðust saman á lestarstöðvum og í lestum og voru skilríki skoðuð hjá yfir 900 manns. Mörgum þeirra var fyrirskipað að koma sér í burt af svæðinu af lögreglu.

Fyrirsögn á frétt Spiegel á netinu er eftirfarandi: „Vinsamlegast en hvað þýðir nafri?“ en hugtakanotkun lögreglunnar er harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum í gær og í dag. 

Simone Peter, leiðtogi Græningja segir í viðtali við Rheinische Post í dag að þessi mikli viðbúnaður lögreglu hafi greinilega skilað árangri en Peter veltir fyrir sér hvort lögreglan hafi brotið lög landsins með því að stöðva tæplega eitt þúsund manns og krefja þá um skilríki einvörðungu á grundvelli útlits. Hún segir að það sé algjörlega óþolandi að dæma fólk út frá útliti og nefna það sérstökum nöfnum. 

Lögreglustjórinn í Köln, Jürgen Mathies, segir að handtökurnar og eftirlitið hafi tvímælalaust skilað árangri og átt rétt á sér. Hann harmar hins vegar notkun orðsins nafri í færslum lögreglunnar á Twitter. 

Talsmaður lögreglunnar segir að mennirnir sem hafi verið handteknir hafi allir taldir mögulegir glæpamenn og þeir hafi mælt sér mót í miðborginni í þeim tilgangi að fremja glæpi.

Mathies segir að orðið nafri hafi aðeins átt að nota í innahússamskiptum lögreglunnar en það sé hins vegar ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að glæpum sem fólk frá Norður-Afríku fremja í borginni hafi fjölgað. Það segi hins vegar ekkert um stærstan hluta þeirra norðurafríkumanna sem búi í Þýskalandi og komist aldrei í kast við lögin. 

Vinsæll þýskur skemmtikraftur, Jan Böhmermann, veltir fyrir sér hvaða munur sé  á því að nota orðið nafri eða neger (negri)?



AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert