Fyrsta stóra áskorun Trumps

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Fyrsta stóra áskorun Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, á sviði utanríkismála verða áform stjórnvalda í Norður-Kóreu um að koma sér upp eldflaugum sem geta borið kjarnorkusprengjur til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í fréttskýringu AFP.

Trump hafi, þegar minna en þrjár vikur séu fram að embættistöku hans, sent Kim Jong-un, hinum óútreiknanlega einræðisherra Norður-Kóreu, viðvörun eins og honum sé tamt. Með yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Twitter um að áformin næðu ekki fram að ganga.

Kim tilkynnti í byrjun ársins að Norður-Kórea hefði í hyggju að gera tilraunir með eldflaug sem gæti ógnað Bandaríkjunum. „Norður-Kórea hefur lýst því yfir að landið sé á síðustu metrunum í að þróa kjarnorkuvopn sem geti náð til Bandaríkjanna. Það mun ekki takast!“ svaraði Trump á Twitter.

Vangaveltur hafa verið uppi um það í Bandaríkjunum hvort eitthvað búi að baki orðum Trumps. Forsetinn verðandi hafi enda ekkert gefið upp um það. Ef Kim haldi sig hins vegar við áformin, þrátt fyrir þær refsiaðgerðir sem þegar hafi verið gripið til gegn Norður-Kóreu, sé spurning hvernig ríkisstjórn Trumps bregðist við.

Ráðast Bandaríkin á Norður-Kóreu?

Strobe Talbott, fyrrverandi varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sett fram þá spurningu hvort Trump hafi fyrir embættistöku sína lýst því yfir með orðum sínum að Bandaríkin séu reiðubúin að ráðast á Norður-Kóreu til þess að fyrirbyggja árás á þau sjálf.

Fram kemur í fréttaskýringu AFP að Talbott tali fyrir hönd margra sem óttist að Trump hafi takmarkaða möguleika á að fylgja eftir orðum sínum eftir diplómatískum leiðum. Fyrri ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi lagt áherslu á refsiaðgerðir undir forystu Sameinuðu þjóðanna.

Trump hafi lýst því yfir að það væri óþolandi ef ríki eins og Norður-Kórea hefði yfir að ráða eldflaugum sem gætu borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna. Ef refsiaðgerðir skili ekki nægum árangri óttist margir að eina leiðin verði hernaðaraðgerðir.

Bandaríski herinn, sem hafi um 30 þúsund hermenn í Suður-Kóreu, sé þegar farinn að undirbúa sig fyrir alla möguleika í stöðunni. Þar með talið stríð.

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert