Ekki sekur eftir 24 ára afplánun

Carini situr áfram inni.
Carini situr áfram inni. Ljósmynd/Fangelsiskerfi Illinois

Bandarískir dómstólar hafa snúið við fangelsisdómi yfir karlmanni sem þegar hefur afplánað næstum 25 ár af 26 ára dómnum, en hann hafði verið fundinn sekur um nauðgun.

Maðurinn, sem heitir William Carini og er 54 ára, var sakfelldur árið 1992 fyrir að ráðast á konu sem svaf í bíl sínum í vegkanti. Við endurskoðun málsins hefur hins vegar komið í ljós að engin haldbær sönnunargögn geta tengt Carini við glæpinn.

Hann mun þó áfram þurfa að sitja inni, vegna lífstíðardóms fyrir að myrða frænda sinn og unga konu.

Athygli vekur að mál hans er það sjöunda í Lake-sýslu í Illinois-ríki síðan 2010, þar sem sakfellingardómi er snúið við. Fjórir þeirra hafa verið fyrir morð og þrír fyrir nauðgun.

Nauðgunarmálið er því enn óleyst. Móðir Carini, hin 73 ára Ruthe Wille, sem sjálf var sakfelld fyrir að myrða eiginmann sinn og stjúpföður Carini á áttunda áratugnum, gegndi lykilhlutverki í því að dómur hans yrði endurskoðaður, samkvæmt frétt BBC.

Hún segist vona að dómur yfir honum vegna morðanna tveggja verði einnig skoðaður í nýju ljósi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert