Viðræður við Kim eina lausnin?

Donald Trump í nýársveislu í Flórída ásamtkonu sinni, Melaniu. Hann …
Donald Trump í nýársveislu í Flórída ásamtkonu sinni, Melaniu. Hann hefur léð máls á viðræðum við Kim Jong-un. AFP

Donald Trump hefur gefið til kynna með tísti á Twitter að tilraunir Norður-Kóreumanna til að þróa kjarnavopn, sem hægt væri að beita til árása á Bandaríkin, verði eitt brýnasta viðfangsefni hans í þjóðaröryggismálum eftir að hann tekur við forsetaembættinu 20. þessa mánaðar. Fréttaskýrendur telja að möguleikar Trumps á að knýja Norður-Kóreumenn til að láta af þessum tilraunum séu takmarkaðir og nokkrir þeirra segja hann hafa málað sig út í horn með því að lýsa því yfir að þeim verði ekki kápan úr því klæðinu að smíða kjarnorkuflaugar sem hægt væri að skjóta á Bandaríkin.

Kim Jong-un, leiðtogi einræðisstjórnarinnar í Pjongjang, sagði í nýársávarpi á sunnudaginn var að Norður-Kóreumenn hygðust skjóta langdrægri eldflaug í tilraunaskyni og undirbúningur þess væri á lokastigi. Landið væri orðið kjarnorkuveldi „sem jafnvel öflugustu óvinirnir gætu ekki snert“.

„Norður-Kóreumenn voru að lýsa því yfir að þeir væru nú að ljúka við að þróa kjarnavopn sem hægt væri að skjóta á hluta Bandaríkjanna. Það gerist ekki,“ sagði Trump á Twitter.

Tæpri klukkustund síðar tísti hann aftur og gagnrýndi stjórnina í Kína fyrir að knýja ekki bandamenn hennar í Norður-Kóreu til að hætta tilraununum til að þróa langdrægar kjarnorkuflaugar. „Kínverjar hafa tekið fúlgur fjár og mikinn auð frá Bandaríkjunum í algerlega einhliða viðskiptum og þeir vilja ekki hjálpa í baráttunni við Norður-Kóreu,“ sagði hann.

Stefna Trumps mjög óljós

Yfirlýsingar Trumps um Norður-Kóreu hafa stundum verið mótsagnakenndar og stefna hans er enn óljós eftir síðustu tístin á Twitter, að því er The Wall Street Journal hefur eftir Daryl Kimball, bandarískum sérfræðingi í afvopnunarmálum. Hann telur þó að Trump hafi gefið til kynna að Norður-Kóreumálið verði forgangsverkefni stjórnar hans í þjóðaröryggismálum og að hann hafi viðurkennt að ekki verði hægt að binda enda á áform stjórnarinnar í Pjongjang „með því einfaldlega að útvista verkefnið til Kína“.

Talsmaður utanríkisráðuneytisins í Suður-Kóreu sagði að yfirlýsing Trumps á Twitter væri mikilvæg vegna þess að þetta væri í fyrsta skipti sem hann ræddi kjarnavopnaáform Norður-Kóreumanna eftir kosningarnar og hægt væri að líta á hana sem „skýra viðvörun“. Ljóst væri að Trump gerði sér fulla grein fyrir hættunni sem stafaði af áformum Norður-Kóreumanna.

Steve Evans, fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins í Seoul, segir að yfirlýsing Trumps á Twitter um Norður-Kóreu sé mjög óljós og hægt sé að túlka hana á marga vegu. Ef til vill megi draga þá ályktun að Trump telji að Norður-Kóreumönnum takist ekki að þróa eldflaugar sem hægt væri að nota til kjarnorkuárása á Bandaríkin, eða að einræðisstjórnin í Pjongjang falli, eða að hann ætli að hefja viðræður við Kim Jong-un til að fá hann til að hætta við áformin, eða að hann sé að íhuga hernað til að koma í veg fyrir að Norður-Kóreumenn eignist kjarnavopn sem hægt væri að skjóta á bandarískar borgir.

Málgögn Kims Jong-un sögðu í júní að Trump væri „viturstjórnmálamaður“ …
Málgögn Kims Jong-un sögðu í júní að Trump væri „viturstjórnmálamaður“ og besti kosturinn fyrir bandaríska kjósendur. AFP

Hefur léð máls á viðræðum

Katie Hunt, fréttaskýrandi CNN-sjónvarpsins, hefur eftir nokkrum sérfræðingum að Trump hafi málað sig út í horn með yfirlýsingu sinni um Norður-Kóreu. Hann eigi aðeins fjóra misraunhæfa kosti í málinu: að knýja Kínverja til að binda enda á áform Norður-Kóreumanna, að herða refsiaðgerðir gegn stjórninni í Pjongjang, að fyrirskipa hernað, eða að hefja viðræður við Kim Jong-un.

CNN hefur eftir sérfræðingum í málefnum Kína og Norður-Kóreu að ólíklegt sé að stjórnvöld í Peking vilji eða geti knúið Norður-Kóreumenn til að hætta við að þróa kjarnavopnin. Ráðamennirnir í Kína hafa látið í ljós óánægju með áform Kim Jong-un en verið tregir til að ganga hart að honum til að binda enda á þau. Kínverjar hafa verið helstu bandamenn einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu og vilja ekki að hún hrökklist frá völdum vegna þess að þeir óttast að það geti valdið glundroða og valdatómarúmi sem gæti orðið til þess að bandamenn stjórnvalda í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum kæmust til valda í Pjongjang. Algert efnahagshrun gæti einnig orðið til þess að milljónir Norður-Kóreumanna flýðu yfir landamærin til Kína.

Sérfræðingarnir telja einnig ólíklegt að efnahagslegar refsiaðgerðir dugi til að fá einræðisstjórnina í Pjongjang til að gefa eftir í deilunni. Hún líti svo á að kjarnavopn séu það eina sem geti tryggt að hún haldi velli. „Það er erfitt að refsa Norður-Kóreustjórn vegna þess að hún hefur svo litlu að tapa,“ hefur CNN eftir John Delury, prófessor í kínverskum fræðum við háskóla í Seoul.

Hann telur einnig að of seint sé að beita hernaði til að fyrirbyggja að Norður-Kóreumenn eignist kjarnavopn, meðal annars vegna hættunnar á að þeir svari með mannskæðum árásum á Suður-Kóreu, hugsanlega með kjarnavopnum. Fréttaskýrandi BBC tekur í sama streng og segir að möguleikarnir á hernaði séu takmarkaðir og ekki sé víst að sprengjuárásir eða áhlaup sérsveita dugi til að leysa vandamálið.

Delury telur að fjórði kosturinn, þ.e. að hefja viðræður við Kim Jong-un, sé eina leiðin til að reyna að fá hann til að gefa eftir í deilunni. Hann skírskotaði til þess að Trump sagði eitt sinn í kosningabaráttunni að Kim Jong-un væri „slæmur náungi“ en kvaðst vera tilbúinn að „ræða við hann og borða hamborgara með honum“. Málgögn Norður-Kóreustjórnar sögðu í júní að Trump væri „vitur stjórnmálamaður“ og talið er að hún vilji viðræður við hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert