Sýna enga iðrun eftir árásina

Samsett mynd af fólkinu sem réðst á piltinn. Anishia Covington, …
Samsett mynd af fólkinu sem réðst á piltinn. Anishia Covington, Jordan Hill, Tesfaye Cooper og Brittany Covington. AFP

Fjögur ungmenni hafa verið ákærð af saksóknara í Chicago fyrir mannrán og hatursglæp fyrir að hafa ráðist á andlega fatlaðan mann og sýnt beint frá árásinni á Facebook.

Í myndskeiðinu sést fólkið, Jordan Hill, Tesfaye Cooper og Brittany Covington, öll átján ára gömul og Tanishia Covington, sem er 25 ára, hræða fórnarlambið, sem er 18 ára, og berja á meðan þau öskra: „Fjandinn hirði Donald Trump,“ og „Fjandinn hirði hvítt fólk,“ en fjórmenningarnir eru allir svartir en fórnarlambið hvítt á hörund.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, sem er frá Chicago, segir árásina fyrirlitlega.

Frétt mbl.is: Sendu út árás á þroskaskertan mann

Árásarfólkið verður leitt fyrir dómara í dag en myndskeiðið hefur vakið upp spurningar og deilur um samfélagsmiðla eins og Facebook og Twitter og beinar útsendingar þar. Ekki er óalgengt að ofbeldi í sinnu hræðilegustu mynd birtist þar án þess að nokkuð sé gert til þess að hindra aðgang fólks að því og að ritskoða það.

Lögreglustjórinn í Chicago, Kevin Duffin, segir að fólkið hafi verið ákært fyrir hatursglæp þar sem fórnarlamb þeirra er með þroskaskerðingu auk þeirrar staðreyndar að þau bundu hann og kefluðu og viðhöfðu rasistaummæli sem þau streymdu beint á Facebook.

Yfirvöld vita ekki hvort fórnarlambið, sem einn árásarmannanna þekkti úr skóla, hafi kosið í forsetakosningunum í nóvember né heldur hvort stjórnmálaskoðanir hans hafi haft áhrif á níðingana.

Árásin stóð yfir í fjórar eða fimm klukkustundir á þriðjudag en hluti hennar birtist beint á Facebook. Myndefnið, sem spannaði 30 mínútur, fór víða á samfélagsmiðlum áður en Facebook lokaði því. 

Obama segir í samtali við CBS að hann telji að myndskeiðið sýni aðeins toppinn á ísjakanum á miklu stærra vandamáli sem kraumi undir niðri. 

Í myndskeiðinu sjást konurnar tvær og karlarnir skera sundur hluta fatnaðar fórnarlambsins, berja það og skera hár þess við höfuðleðrið þannig að því blæðir. Meðan á árásinni stóð var hann bundinn og límband sett fyrir munn hans. Hann var einnig þvingaður til þess að drekka vatn úr klósettskálinni. Hill og fórnarlambið höfðu eytt miklum tíma saman dagana fyrir árásina en um skipulagða dagskrá var að ræða hjá skóla þeirra til þess að auka samskipti milli nemenda. Þetta hófst með grínslag sem endaði í árás, segir Duffin. 

Ungmennin hafa ekki sýnt neina iðrun en þau eiga öll yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir ofbeldið.

Brittany Covington.
Brittany Covington. AFP
Jordan Hill.
Jordan Hill. AFP
Tanishia Covington.
Tanishia Covington. AFP
Tesfaye Cooper.
Tesfaye Cooper. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert