16 handteknir vegna Kardashian-ránsins

Hjónin Kanye West og Kim Kardashian í París í haust.
Hjónin Kanye West og Kim Kardashian í París í haust. AFP

Franska lögreglan handtók í nótt sextán manns í tengslum við rán á munum í eigu Kim Kardashian á hóteli í París í fyrra. 

Nokkrir vopnaðir og grímu­klædd­ir menn brutu sér leið inn í hót­el­her­bergi Kardashian í París en hún var stödd í borginni í tengslum við tískuvikuna og rændu frá henni skartgripum sem metnir eru á níu milljónir evra, sem svarar til tæplega 1,1 milljarðs króna.

Kardashian var í hótelíbúð sinni þegar mennirnir réðust þangað inn í byrjun október en að minnsta kosti tveir þeirra voru klæddir í lögreglubúninga. Þeir beindu að henni byssum, bundu hana og læstu inni á baðherbergi íbúðarinnar. Síðan létu þeir greipar sópa og stálu meðal annars demantshring hennar. Hringurinn er gjöf frá eiginmanni hennar, Kanye West, en rapparinn hannaði hringinn sjálfur og gaf eiginkonu sinni stuttu fyrir ránið.

Um helgina tjáði Kardashian, 36 ára, sig fyrst um ránið, en hún segist hafa óttast að vera drepin af ræningjunum. „Þeir ætluðu að skjóta mig í bakið,“ heyrist Kardashian segja við systur sínar í stiklu úr nýrri raunveruleikaþáttaröð fjölskyldunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert