Handtökur byggðar á lífsýni

Hér sést lögreglan standa vörð við Rue Tronchet, skammt frá …
Hér sést lögreglan standa vörð við Rue Tronchet, skammt frá Madeleine kirkjunni og lestarstöðinni í miðborg Parísar. Hótelíbúðin sem Kim Kardashian dvaldi í er við götuna. AFP

Aðgerðir lögreglu í Frakklandi í nótt þar sem sextán manns voru handteknir í tengslum við ránið á skartgripum í eigu bandarísku raunveruleikastjörnunnar Kimi Karadashian byggja á lífsýni sem fannst á vettvangi í byrjun október í fyrra. 

Heimildir AFP fréttastofunnar innan úr röðum lögreglunnar herma að lífsýni sem fannst í hótelíbúðinni samsvari lífsýni úr manni sem hefur áður komist í kast við lögin í tengslum við rán. 

Kim Kardashian, Kourtney Kardashian og Kris Jenner.
Kim Kardashian, Kourtney Kardashian og Kris Jenner. AFP

Eins og ítrekað hefur verið fjallað um á mbl.is réðust vopnaðir grímuklæddir menn inn í hótelíbúð Karadashian í París, en hún var stödd í borginni í tengslum við tískuvikuna í haust. Þeir bundu hana og lokuðu inni á baðherbergi íbúðarinnar á meðan þeir létu greipar sópa. Alls nam ránsfengurinn um níu milljónum evra, sem svarar til tæp­lega 1,1 millj­arðs króna.

Með þeim sönnunargögnum sem fundust á vettvangi gat lögreglan fylgst með glæpahring sem talinn er standa á bak við ránið. Allt bendir til þess að starfsemi hans teygi sig til Belgíu, að sögn heimildarmanns AFP innan frönsku lögreglunnar. Meðal annars var lagt hald á peninga og skjöl í aðgerðunum í nótt, en fólkið var handtekið í París og Suður-Frakklandi. 

Ræningjarnir voru klæddir í lögreglubúninga í ráninu, en hótelíbúðin er í nágrenni við Madeleine-kirkjuna. Meðal þess sem þeir höfðu á brott með sér var demantshringur sem metinn er á um fjórar milljónir evra. 

Lífvörður Kardashian-fjölskyldunnar í Frakklandi, Pascal Duvier, var ekki á vettvangi þar sem hann var að gæta systur Kim, Kourtney, á næturklúbbi í París á sama tíma.

Kim Kardashian, sem er gift tónlistarmanninum Kanye West, segir í kynningarmyndskeiði fyrir nýja þáttaröð þar sem fylgst er með lífi fjölskyldunnar að hún hafi haldið að þeir myndu drepa sig.

Þar segir hún snöktandi við systur sínar að þeir hafi ætlað að skjóta hana í bakið og ekki hafi verið nein undankomuleið. 

Talið er að ræningjarnir, sem komust undan á reiðhjólum, hafi óvart misst demant sem metinn er á 30 þúsund evrur á götunni fyrir utan hótelið. Vegfarandi sem átti leið um fann demantinn og fór með hann til lögreglunnar nokkrum klukkustundum eftir ránið.

Lögreglumenn standa vörð á Rue Tronchet, skammt frá Madeleine, daginn …
Lögreglumenn standa vörð á Rue Tronchet, skammt frá Madeleine, daginn eftir ránið en íbúðin er við götuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert