Breivik fyrir dóm á ný

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik.
Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik. AFP

Mál fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik verður tekið fyrir hjá norskum áfrýjunardómastól í dag.  Norska ríkið var í apríl sak­fellt fyr­ir að hafa brotið mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu við meðferðina á Brei­vik og áfrýjaði rík­is­lögmaður dómn­um. 

Norska ríkið var talið hafa brotið gegn 3. grein sátt­mál­ans og dæmt til að greiða 330 þúsund norsk­ar krón­ur í máls­kostnað til handa Brei­vik.

Í frétt mbl.is frá því í maí kem­ur fram að í áfrýj­un­ar­gögn­um segi að ríkið líti svo á að meðferðin á Brei­vik hafi verið mannúðleg. Snýr áfrýj­un­in bæði að heim­færslu til laga­ákvæða og sönn­un­ar­mat­inu.

Seg­ir í áfrýj­un­ar­gögn­un­um að Brei­vik hafi allt frá því að hann var hand­tek­inn fyrst fengið mannúðlega meðferð. Hafi fang­elsis­vist hans verið sam­kvæmt lög­um í land­inu og verið aðlöguð í sam­ræmi við hegðun hans af full­trú­um fang­els­is­yf­ir­valda.

Þá er því haldið fram að dóm­stóll­inn hafi ekki tekið til­lit til þeirr­ar hættu sem enn staf­ar af Brei­vik. Í dómn­um seg­ir að fang­els­is­yf­ir­völd hafi of­metið hætt­una sem staf­ar af hon­um og að yf­ir­völd hafi látið ör­ygg­is­sjón­ar­mið ráða of miklu. 

22. júlí 2011 kom Breivik, klæddur sem lögreglumaður, á eyjuna Utøya þar sem ungliðahreyfing Verkamannaflokksins var í sumarbúðum. Hann skaut 69 manns, aðallega ungmenni, til bana í eyjunni en í klukkutíma elti hann fórnarlömb sín uppi, meðal annars þau sem höfðu flúið út í ískalt vatnið. Fyrr um daginn hafði hann drepið átta mann sem því að sprengja sprengju við opinbera byggingu í Ósló.

Frétt Aftenposten

Breivik var dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir morðin og hægt er að framlengja dóminn ef hann þykir enn vera ógn við samfélagið. Hann hefur yfir þremur klefum að ráða í fangelsinu þar sem hann getur spilað tölvuleiki og horft á sjónvarp. Hann er með tölvu án aðgengis að netinu, líkamsræktartæki, bækur og dagblöð. Þrátt fyrir þetta taldi héraðsdómur aðbúnað hans brjóta gegn þriðju grein mannréttindasáttmálans.

Er það einkum einangrun Breiviks sem þykir brot á sáttmálanum en honum er haldið fjarri öðrum föngum í öryggisskyni. Á þeim fimm og hálfu ári sem hann hefur setið á bak við lás og slá hefur hann aðeins fengið að tala við fangaverði og sérfræðinga, svo sem lögmenn og lækna, bak við glervegg. Ein undantekning hefur verið á þessu þegar móðir hans fékk að heimsækja hann skömmu fyrir andlát sitt.

Undirréttur setti einnig spurningarmerki við ýmislegt annað sem Breivik þarf að þola í fangelsinu. Svo sem að leitað sé á honum nöktum, hann sé ítrekað hafður í handjárnum og vakinn oft á nóttunni en það var í upphafi fangavistarinnar.

Réttarhöldin nú standa í sex daga og segja Norðmenn þau rífa aftur upp gömul sár en í undirrétti heilsaði Breivik að nasistasið þegar hann mætti í réttarsalinn og kvartaði sáran yfir köldu kaffi og frosnum mat. Líkti hann sér jafnvel við Nelson Mandela.

Fjölskyldur fórnarlamba hans biðja þá sem eiga um sárt að binda að undirbúa sig undir það versta. Að Breivik takist enn og aftur að komast í sviðsljós fjölmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert