Norðmenn hætta FM-útsendingum

Miðborg Óslóar. Konungshöllin í bakgrunni.
Miðborg Óslóar. Konungshöllin í bakgrunni. mbl.is/Golli

Noregur verður fyrsta landið í heiminum sem hættir FM-útsendingum útvarps, var þetta ákveðið í desember en ákvörðunin tók gildi í dag. Klukkan 11:11 að staðartíma í morgun hófst ferlið, fyrst í Nor­d­land og svo smám sam­an eft­ir því sem sunn­ar dreg­ur.

Norðmenn ætla að skipta yfir í svokallað DAB [Digital Audio Broadcasting] kerfi sem gerir það að verkum að útvarpstæki um fimm milljóna Norðmanna verða úrelt.

Stafræna kerfið býður upp á meiri gæði og kostar ekki nema lítinn hluta af því sem FM-kerfið kostaði, eða 12,5%.

Samkvæmt skoðanakönnum sem Dagbladet lét framkvæma í desember eru tæp 70% Norðmanna andsnúin þessum breytingum og þykir þeim hlutirnir breytast of hratt. Aðeins 17% stuðning­ur var við að leggja FM-út­send­ing­ar al­farið niður.

Við lok þessa árs verða ríkisstöðvar eingöngu aðgengilegar á DAB-rásum en aðrar stöðvar hafa fimm ár til að breyta sínum málum.

Þrátt fyrir að um 70% Norðmanna noti DAB-kerfið hafa gagnrýnendur sagt að of margir þurfi að ráðst í dýrar endurbætur á tækjum sínum en nýtt útvarp í bíl kostar um 4.000 norskar krónur (54.000 íslenskar krónur).

„Noregur er ekki tilbúinn. Það eru milljónir útvarpstækja sem munu ekki virka og einungis 25% bíla í Noregi ná DAB-kerfinu,“ sagði Svein Lar­sen, formaður sam­bands út­varps­stöðva í Nor­egi.

„En Nor­eg­ur hef­ur tekið þessa ákvörðun. Vegna praktískra ástæðna og hag­kvæm­is­ins vegna er það of seint að snúa aft­ur núna.“

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert