Bandaríkjunum boðið til friðarviðræðna

Reyk leggur frá svæði uppreisnarmanna í Suður-Sýrlandi.
Reyk leggur frá svæði uppreisnarmanna í Suður-Sýrlandi. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa samþykkt að bjóða fulltrúum Bandaríkjanna til viðræðna um framtíð Sýrlands, sem eiga að fara fram í Astana, höfuðborg Kasakstans, síðar í þessum mánuði.

„Bandaríkin ættu tvímælalaust að taka þátt, og um það vorum við sammála Rússum,“ sagði utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, við blaðamenn í Genf í dag, að lokinni alþjóðlegri ráðstefnu um málefni Kýpur.

Búist er við að viðræðurnar í Astana hefjist 23. janúar.

Vopnahlé náðist í landinu í síðasta mánuði, fyrir milligöngu Rússlands og Tyrklands, en án aðkomu Bandaríkjanna, sem áður höfðu komið að friðarviðræðum í landinu.

Vopnahléð tók gildi 30. desember og hefur fært ró yfir mikinn hluta landsins, þrátt fyrir að bardagar geisi áfram sums staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert