Hart barist um háskólann í Mósúl

Maður ekur með vatnsbirgðir í gegnum rústir Qadisiyah hverfisins í …
Maður ekur með vatnsbirgðir í gegnum rústir Qadisiyah hverfisins í Mósúl. Hart hefur verið barist um háskóla borgarinnar í dag. AFP

Hersveitir Íraksstjórnar og bandamanna þeirra hafa mætt mikilli mótstöðu frá vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams í baráttunni um Mósúl háskóla í dag, en samtökin hafa notað skólabyggingarnar sem bækistöðvar fyrir vígamenn sína í borginni.

Stjórnarherinn hefur unnið að því frá því í október að ná Mósúl úr höndum hryðjuverkasamtakanna og hófst lokahnykkur áhlaupsins á borgina, sem er síðasta höfuðvígi samtakanna í Írak, í síðasta mánuði.

Íraski herinn hefur þegar náð hluta háskólabygginganna á sitt vald. Fréttavefur BBC hefur eftir talsmönnum hersins að miklu skipti að herinn nái efnafræðistofum háskólans á sitt vald, en liðsmenn Ríkis íslams hafi notað stofurnar til að búa til efnavopn.

Fréttir hafa einnig borist af því að stjórnaherinn sé nú komin að al-Hurriya brúnni í borginni og að Ríki íslams hafi orðið fyrir miklu manntjóni í baráttunni um þann hluta borgarinnar.

Sérsveitir hersins eru nú sagðar hafa náð austurhluta tveggja af þeim fimm brúm sem liggja yfir ánna  Tígris í borginni á sitt vald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert