Vígamaður í bréfaskriftum

Abdeslam Salah.
Abdeslam Salah. AFP

Salah Abdeslam, sem er grunaður um aðild að hryðjuverkaárásinni í París 13. nóvember 2015, segist ekki skammast sín. Þetta kemur fram í bréfi sem hann ritaði konu sem hefur skrifast á við hann í fangelsinu. Hann hefur hingað til ekkert tjáð sig um árásina.

Fjallað er um þetta í fréttum frönsku fjölmiðlanna í morgun en dagblaðið Liberation birtir í dag samskipti Abdeslam og ónafngreindrar konu. 

Þar er haft eftir Abdeslam að hann sé ekkert hræddur um að verða fótaskortur á tungunni þar sem hann skammist sín ekki fyrir það sem hann er og hvað geti verið verra en það sem þegar hefur verið sagt. 

„Ég skrifa þér án þess að vita hvernig á að byrja. Ég hef fengið bréf þín og ég veit ekki hvort ég er ánægður með þau eður ei. Þau gefa mér án efa möguleika á að eyða smá tíma í heiminum fyrir utan,“ skrifar hann í bréfi til konunnar.

Abdeslam segist ætla að fara að hennar fordæmi og koma hreint fram. Ef ég spyr þig um hvað þú hefur í hyggju þá er það til þess að fullvissa mig um að þú elskir mig ekki eins og einhverja stjörnu eða átrúnaðargoð því ég fæ slík skilaboð og hef engan áhuga á þeim því eina manneskjan sem á skilið að vera dýrkuð er Allah,“ skrifar hann.

Liberation segir að Abdeslam hafi fengið skilaboð og bréf frá nokkrum manneskjum en hafi aðeins svarað þessari konu.

Saleh Abdeslam, sem er 27 ára gamall, var fluttur til Frakklands frá Belgíu í apríl eftir að hafa verið handtekinn í Brussel. Í október greindu lögfræðingar hans frá því að þeir ætluðu að hætta að verja hann þar sem hann svaraði engum spurningum þeirra.

Abdeslam, sem er fæddur í Belgíu en með franskt ríkisfang, er talinn sá eini af hryðjuverkamönnunum í París sem er enn á lífi. 130 létust í árásinni. Hann er sakaður um að hafa komið að skipulagningu árásarinnar en alls tóku sjö þátt í árásunum sem voru gerðar víða í París. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert