Refsiaðgerðum mögulega aflétt

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, ýjar að því að hann muni mögulega aflétta refsiaðgerðum gagnvart Rússum og að ekki sé fullvíst að sama stefna muni gilda í samskiptum Bandaríkjanna og Kína eftir að hann tekur við sem forseti. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Wall Street Journal við Trump í gær. 

Hingað til hafa Bandaríkin litið á Taívan sem hluta af Kína en Trump segir að til þess að svo verði áfram verði stjórnvöld í Peking að gera úrbætur í gjaldeyris- og vöruskiptum sínum. 

Fjölmiðlar í Kína hafa mótmælt ummælum Rex Tillersons, utanríkisráðherraefnis Trumps, um að hann vilji hindra að Kínverjar hafi aðgang að manngerðum eyjum sem þeir hafa byggt upp á umdeildu svæði í Suður-Kínahafi. Í yfirheyrslu á þinginu líkti Tillerson framkvæmdum Kínverja á svæðinu við innlimun Krímskaga í Rússland. Nokkur grannríki Kína hafa gert tilkall til hafsvæðisins, þeirra á meðal Filippseyjar og Víetnam.

Dagblaðið China Daily, sem er gefið út á ensku, sagði að ef Bandaríkjamenn reyndu að hindra aðgang Kínverja að eyjunum gæti það leitt til stríðs og minnti á að Kína er kjarnorkuveldi.

Trump segir í viðtalinu að refsiaðgerðunum gagnvart Rússum, sem settar voru í valdatíð Barack Obama, verði ekki breytt í einhvern tíma en ríkisstjórn Obama herti aðgerðir sínar gagnvart Rússlandi í síðasta mánuði vegna tölvuárása í kosningabaráttunni vestanhafs.

En ef Rússar aðstoða Bandaríkin við að berjast við ofbeldisfulla öfgamenn, svo sem Ríki íslams, og annað sem Trump telur mikilvægast sér Trump því ekkert til fyrirstöðu að draga úr refsiaðgerðunum.

Hann segist vera reiðubúinn til þess að eiga fund með forseta Rússlands, Vladimír Pútín, þegar hann hefur tekið við embætti forseta 20. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert