Blóðbað í brasilísku fangelsi

Alcacuz-fangelsið í Bras­il­íu.
Alcacuz-fangelsið í Bras­il­íu. AFP

Í það minnsta 30 voru drepn­ir í óeirðum í Alcacuz-fangelsinu í Bras­il­íu en slags­mál brut­ust út á milli tveggja gengja í fang­els­inu í gær. Átökin stóðu yfir í fjórtán klukkustundir. Fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar að um blóðbað hafi verið að ræða, en einhverjir hinna myrtu voru hálshöggnir. 

Öryggissveitir umkringdu fangelsið, en einhverjir fanganna voru sagðir vera vopnaðir. Öryggissveitirnar ruddust svo inn í fangelsið snemma í morgun. Fangelsið er yfirfullt en þar sitja nú 1.083 fangar þrátt fyrir að það hafi aðeins verið byggt fyrir 620 fanga. 

Talið er að átökin hafi verið á milli stærsta eiturlyfjagengis Brasilíu, First Capital Command, og annars gengis sem er í bandalagi með þeirra helsta andstæðingi. Óeirðir eru al­geng­ar í yf­ir­full­um fang­els­um í Bras­il­íu, en fyrr í mánuðinum létu 60 lífið í sambærilegum átökum í öðru fangelsi þar í landi. 

Í Brasilíu voru 622 þúsund manns fang­ar við lok árs 2014, en mann­rétt­inda­hóp­ar hafa oft kvartað yfir aðbúnaði og aðstæðum fanga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert