Að frjósa í hel í 16 stiga gaddi

Flóttamenn ylja sér við eld í Belgrad í Serbíu.
Flóttamenn ylja sér við eld í Belgrad í Serbíu. AFP

Hundruð flóttabarna í Serbíu eru í hættu á að frjósa í hel en síðustu daga hefur bítandi frostið mælst um 16 gráður. Mannúðarsamtökin Save the Children hafa miklar áhyggjur af ástandinu og hafa kallað eftir hjálp.

Stór hluti flóttamanna, sem dvelja í Serbíu, er á barnsaldri. Sum börnin eru átta og níu ára gömul. Þau hafa engin hlý föt, ekki vettlinga eða almennilega skó, að sögn Save the Children. Þegar hafa flóttamenn úr hópnum kalið á höndum og fótum.

Um 2.000 flóttamenn í borginni Belgrad eiga erfitt í frosthörkunum sem ganga nú yfir Evrópu. Þeir búa í flóttamannabúðum þar sem ekkert rennandi vatn er að finna og salernisaðstaða lítil.

„Evrópusambandið hefur brugðist í málefnum flóttamanna og hefur skilið þúsundir manna, meðal annars börn, eftir úti í kuldanum í bókstaflegri merkingu,“ hefur breska blaðið Telegraph eftir Kirsty McNeill, verkefnastjóra Save the Children. Hún segir að lítill vilji sé til þess að aðstoða fólkið og sameina fjölskyldur. „Þetta fólk er núna að frjósa í hel á þröskuldi Evrópu.“

Margir hafa flúið til Evrópu í gegnum Serbíu og önnur lönd á Balkanskaga. Á hverjum degi koma um hundrað flóttamenn til Serbíu. 

Serbía er ekki í Evrópusambandinu en landamærin liggja þó að löndum innan sambandsins. Fólkið vonast til að komast lengra en flestir komast hvergi.

Save the Children hefur verulegar áhyggjur af öllum flóttamönnum álfunnar nú þegar harður vetur er genginn í garð. Þau hafa aukið aðstoð sína víða, m.a. í Grikklandi og Serbíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert