Bandaríkjaher kominn til Noregs

Bandarísk herþyrla lendir á flugmóðurskipi. Mynd úr safni.
Bandarísk herþyrla lendir á flugmóðurskipi. Mynd úr safni. AFP

Um 300 bandarískir landgönguliðar gengu á land í Noregi í dag. Munu þeir hafa þar búsetu um nokkurt skeið, þrátt fyrir mótmæli rússneskra stjórnvalda.

Eftir að hafa yfirgefið Norður-Karólínu um borð í Boeing-747-þotu í gærkvöldi, lenti hersveitin með farangur og vopn sín á Værnes-flugvellinum, í grennd við Þrándheim, fyrr í dag.

Stjórnvöld Noregs, sem er eitt aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, tilkynntu í október að þau hefðu samþykkt beiðni Bandaríkjanna um að hafa hermenn sína á norskri grundu.

Til að ögra Kremlverjum ekki um of munu hermennirnir aðeins vera í herstöðinni í eitt ár, áður en hermenn annars lands taka við. Hefur aðgerðin verið kynnt sem prófraun fyrir landgönguliðana, til að æfa sig með norska hernum i erfiðum aðstæðum og illviðri.

Rússar hafa á sama tíma virst gramir yfir þessum áætlunum í einu sinna nágrannaríkja, en Noregur og Rússland deila landamærum fyrir norðan heimskautsbaug.

„Þetta mun svo sannarlega ekki bæta öryggisástandið í Norður-Evrópu,“ sagði talsmaður rússneska sendiráðsins í Ósló, Maxim Gurov, við fréttastofu AFP í október.

Frétt mbl.is: Bandaríkjaher til Noregs?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert