Fraktvél brotlenti í íbúðabyggð

AFP

Tyrknesk flutningavél á leið frá Hong Kong brotlenti í nótt í Kirgistan. Að minnsta kosti 32 létust en þeir voru flestir á jörðu niðri þegar vélin brotlenti í íbúðabyggð skammt frá Manas-flugvellinum, í um 25 km fjarlægð norður af höfuðborginni, Bishkek.

Þotan, sem er af Boeing 747-gerð, hafnaði á húsaþyrpingu og eru að minnsta kosti fimmtán hús gjörónýt eftir slysið. Margir þeirra sem létust eru börn. 

Þotan, flug TK6491, átti að millilenda í Manas á leið til Istanbul í Tyrklandi. Vélin brotlenti klukkan 7:30 að staðartíma, klukkan 1:30 að íslenskum tíma, í þorpinu Dacha-Suu, sem er vinsæll ferðamannastaður. Mjög slæmt skyggni var á þessum slóðum vegna frostþoku. Ekki hefur verið greint frá því hvað olli því að þotan brotlenti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert