Halda námskeið um fæðingar í bíl

Ungbörn gera stundum lítil boð á undan sér.
Ungbörn gera stundum lítil boð á undan sér. mbl.is/Kristinn

Tilvonandi foreldrum í sænska bænum Sollefteå er nú boðið upp á þjálfun í að taka á móti barni í bíl, eftir að fyrirhugað var að loka fæðingardeild bæjarins.

Tvær ljósmæður á sjúkrahúsinu í Sollefteå fengu hugmyndina þegar þær vildu finna leið til að hjálpa tilvonandi mæðrum og feðrum að líða betur á þeirri löngu leið sem keyra þarf að næstu fæðingardeild. Frá og með febrúarmánuði hafa bæjarbúar val um að fara annaðhvort í Örnsköldsvik eða Sundsvall, en hvor leið um sig er rúmir hundrað kílómetrar.

Fjöldi fólks kvíðir ferðalaginu

Stina Näslund, sú sem sér um námskeiðið, segist vita til þess að fjöldi fólks kvíði því að ferðast svo langa vegalengd í gegnum strjálbýl svæði, einkum að dimmu vetrarlagi.

Í samtali við vefmiðilinn The Local segist hún vilja búa fólk undir það sem gæti gerst.

„Bílslys, bíllinn gæti bilað, þú gætir keyrt út af veginum. Þú verður að vera tilbúinn, einnig fyrir það versta sem gæti gerst, jafnvel þó að það sé mjög, mjög óalgengt.“

Ákvörðunin um að skera niður fæðingadeildina í Sollefteå, þar sem um níu þúsund manns búa, var hluti af niðurskurðaraðgerðum sem samþykktar voru í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert