Safnaði nýliðum á Spáni

Meintur hryðjuverkamaður handtekinn.
Meintur hryðjuverkamaður handtekinn. AFP

Spænska lögreglan hefur handtekið hnefaleikaþjálfara frá Marokkó sem er grunaður um að hafa safnað nýliðum fyrir vígasamtökin Ríki íslams. Tveir þeirra hafa verið handteknir fyrir að undirbúa hryðjuverk í Evrópu.

Samkvæmt upplýsingum frá spænska innanríkisráðuneytinu var hópurinn í kringum þjálfarann sérhæfður í að senda vígamenn til Tyrklands þar sem þeir fengu þjálfun hjá Ríki íslams í að gera hryðjuverkaárásir í Evrópu. 

Í nóvember voru tveir úr hópnum handteknir í Marokkó og Frakklandi eftir að hafa farið til Tyrklands og til baka. Mennirnir fylgdu þar  nákvæmum leiðbeiningum frá Ríki íslams. Spænsk stjórnvöld segja að yfir 180 meintir hryðjuverkamenn hafi verið handteknir þar í landi síðan árið 2015 en það ár hækkaði Spánn viðbúnaðarstig sitt vegna hættu á hryðjuverkaárásum. 

Landið hefur ítrekað verið nefnt á vefjum öfgasamtaka sem mögulegt skotmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert