Siðanefnd rannsakar lúxusfrí Trudeaus

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada er nú til rannsóknar hjá siðanefnd …
Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada er nú til rannsóknar hjá siðanefnd vegna lúxusleyfis fjölskyldunnar. AFP

Formaður siðanefndar kanadíska þingsins tilkynnti í dag að hann muni hefja rannsókn á lúxusfríi forsætisráðherrans Justin Trudeau á einkaeyju í eigu milljarðamæringsins og mannvinarins Aga Khan.

Í bréfi til þingmanns stjórnarandstöðunnar, sem AFP-fréttastofan hefur undir höndum, tilkynnir formaðurinn Mary Dawson að hún sé að rannsaka hvort dvöl Trudau á einkaeyju Khan í Bahama-eyjaklasanum stangist á við siðalöggjöf þingsins.  

Trudeau og fjölskylda hans dvöldu á heimili Khan á Bell-eyju, ásamt formanni þingflokks Frjálslynda flokksins og öðrum þingmönnum og mökum þeirra, skömmu eftir jól. Flaug Kahn m.a. með forsætisráðherrann til eyjunnar í einkaþyrlu sinni.

Sjóður í eigu Aga Khan hefur hlotið hundruð milljóna dollara frá kanadískum stjórnvöldum til að tala máli þróunarverkefna, en sjóðurinn er skráður sem þrýstihópur.

Kanadísk hagsmunalög banna þeim sem gegna embættum á vegum stjórnarinnar að þiggja gjafir og þá er ráðherrum bannað að þiggja ókeypis ferðalög.

Trudeau sagði í síðustu viku, þegar stjórnarandstaðan kvartaði til formanns siðanefndar vegna málsins, að um fjölskyldufrí hafi verið að ræða. Aga Khan væri gamall fjölskylduvinur. Trudeau sagðist þó taka málið alvarlega og að hann muni með gleði svara spurningum siðanefndar, sem og annarra.

Enginn kanadískur forsætisráðherra hefur verið dæmdur sekur um lögbrot, en jafnvel þótt Trudeau verði fundinn sekur um brot á siðalöggjöfinni verður refsingin ekki hörð. Pólitískar afleiðingar gætu þó orðið meiri fyrir hann og flokk hans – en Trudeau komst til valda gegn loforðum um gagnsætt stjórnkerfi og siðferðilega háttsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert