Þunguð kona lést á yfirfullu sjúkrahúsi

Sjúkrahús eru yfirfull og ekki hægt að veita sjúklingum þá …
Sjúkrahús eru yfirfull og ekki hægt að veita sjúklingum þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. AFP

Stjórnendur sjúkrahúss í Mölndal í Svíþjóð segja í skýrslu sem þeir sendu til yfirvalda að þeir telji að aðstæður á sjúkrahúsinu hafi leitt til dauða þungaðrar konu sem þangað leitaði vegna höfuðverkja og ógleði. Sjúkrahúsið var yfirfullt og því ekki hægt að sinna henni sem skyldi. Þetta kemur fram í frétt á vef sænska ríkissjónvarpsins. 

Konan kom á sjúkrahúsið í desember og var ákveðið að senda hana í heilaskanna en þar sem taugadeildin var yfirfull þurfti konan að vera á bráðamóttökunni yfir nótt. Um nóttina fór ástand hennar versnandi og var konan send í bráðaaðgerð á taugadeildinni um nóttina en ekki tókst að bjarga lífi hennar.

Stjórnendur sjúkrahússins segja í skýrslunni (Lex Mariaanmälan) að jafnvel megi rekja dauða hennar til þess að taugadeildin var yfirfull og því ekki hægt að veita konunni þá aðstoð sem hún hefði þurft á að halda. Vegna álagsins hafi upplýsingar ekki borist með réttum hætti á milli deilda og það að konan var ekki flutt strax á taugadeild getur hafa valdið dauða hennar. 

Stjórnendur sjúkrahússins vildu ekki tjá sig um málið við sænska ríkissjónvarpið á meðan rannsókn á atvikinu stendur yfir en starfsmenn þess hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mála á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu sem Mölndal sjúkrahúsið tilheyrir.

Sjúklingar sem þurfa virkilega á aðstoð að halda neyðast til þess að vera á bráðamóttökunni þar sem ekki er hægt að sinna þeim á þeim deildum sem þeir ættu að vera á. Málið er ekkert einsdæmi en ítrekað hafa komið upp tilvik á sjúkrahúsum í Svíþjóð þar sem sjúklingar hafa ekki fengið þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda vegna mikils álags á starfsfólk.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert