Vilja handtaka erfingja Samsung-veldisins

AFP

Ríkissaksóknari í Suður-Kóreu hefur óskað eftir því að erfingi Samsung-veldisins verði handtekinn í tenglsum við hneykslismál sem skekur efri lög þjóðfélagsins. Meðal þeirra sem tengjast því er forseti landsins.

Þing Suður-Kór­eu samþykkti 9. des­em­ber að kæra for­seta lands­ins, Park Geun-Hye, í tengsl­um við málið og fer for­sæt­is­ráðherra lands­ins, Hwang Kyo-Ahn, með embætt­is­störf henn­ar á meðan rann­sókn stend­ur yfir.

Choi Soon-Sil, upp­nefnd „Ras­pútín Kór­eu“, sem var trúnaðar­vin­kona for­set­ans, Park Geun-Hye, er sökuð um að hafa not­fært sér sam­band þeirra til að knýja fram fjár­fram­lög að and­virði sjö millj­arða króna frá fyr­ir­tæk­jum, m.a. Sam­sung, til stofn­un­ar sem hún stjórn­ar.

Lee Jae-Yong er vara­formaður stjórn­ar Sam­sung Electronics og son­ur stjórn­ar­for­manns Sam­sung Group. Hann var yfirheyrður í síðustu viku vegna rannsóknarinnar. Saksóknari segir að hann hafi óskað eftir því að handtökuskipun verði gefin út á hendur honum og að héraðsdómur muni úrskurða í málinu á miðvikudag.

Tekjur Samsung samsvara fimmtungi af vergri landsframleiðslu S-Kóreu og gæti handtaka Lee haft mikil áhrif á hagkerfi landsins. Saksóknari segir að hann geri sér grein fyrir því en að embættið telji mikilvægara að réttvísin nái fram að ganga. 

Ef Lee verður saksóttur og fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi. Eftir að tilkynnt var um þetta í morgun hafa hlutabréf Samsung lækkað um 2,14% í verði sem þýðir að markaðsvirði félagsins dróst saman um rúmlega fimm milljarða Bandaríkjadala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert