Fyrst kvenna til að stýra Tate

Maria Balshaw.
Maria Balshaw. National Museum Directors' Council

Tate safnið, sem á og rekur fjögur af þekktustu listasöfnun Bretlands, hefur fengið nýjan stjórnanda, Mariu Balshaw. Hún er fyrsta konan sem stýrir Tate sem þýðir að kona gegnir nú í fyrsta skipti áhrifamesta starfi innan breska listheimsins.

Maria Balshaw, sem er 46 ára gömul, tekur við starfinu af Nicholas Serota. Hún hefur stýrt Whitworth-listasafninu í Manchester frá því í júní 2006. Árið 2011 tók hún við sem framkvæmdastjóri Manchester City Galleries meðfram starfi sínu hjá Whitworth og er talað um að hún hafi gjörbreytt menningarlandslagi borgarinnar á þessum rúmu tíu árum.

„Ég þakka heiðurinn sem mér er sýndur af stjórnarmönnum Tate,“ segir Balshaw en hún tekur við starfinu 1. júní. Hún segir að undir stjórn Serota hafi Tate breytt um ásýnd og sú breyting sé til frambúðar. Hvernig við hugsum öll um listir og listamenn og hvernig sjónlistir eru orðnar miðpunktur menningarlífs Bretlands.

Serota, sem stýrði Tate í tæp 30 ár, breytti stofnuninni í alþjóðlegt vörumerki með stofnun Tate Modern í London, sem er vinsælasta samtímalistasafn heims, og stýrði einnig þremur galleríum undir hatti Tate, Tate Britain í London, Tate Liverpool og Tate St Ives. Þegar hann hættir hjá Tate verður hann stjórnarformaður Arts Council England.

Balshaw stýrði verkefni um umbreytingu í Whitworth-safninu en kostnaðurinn nam 17 milljónum punda. Safnið var í kjölfarið valið safn ársins 2015. 

Umfjöllun um Mariu Balshaw á vef Guardian 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert