Hafna beiðni um bann við nasistaflokki

Andreas Voßskuhle, sést hér greina frá niðurstöðu stjórnlagadómstólsins.
Andreas Voßskuhle, sést hér greina frá niðurstöðu stjórnlagadómstólsins. AFP

Stjórnlagadómstóll Þýskalands hefur vísað frá dómi beiðni um að banna nýnasistaflokkinn NPD. Ástæðan fyrir því að beiðninni er vísað frá er sú að flokkurinn er svo lítill og um leið áhrifalaus að hann getur ekki skapað raunverulega ógn við lýðræðisskipun landsins.

Forseti stjórnlagadómstólsins, sem er æðsti dómstóll Þýskalands, Andreas Voßskuhle, segir að beiðninni hafi verið hafnað. En alls eru félagar NPD um sex þúsund talsins.

Félagar í nýnasistaflokknum tóku í fyrra  þátt í mótmælagöngum og útifundum öfgahreyfingarinnar PEGIDA sem segist berjast gegn „íslamsvæðingu Vesturlanda“. NPD hefur reynt að notfæra sér vaxandi andúð á útlendingum vegna mikils straums flótta- og farandmanna til Þýskalands. 

Voßskuhle segir að markmið NPD séu í andstöðu við stjórnarskrána en eins og staðan sé nú eru engar sannanir fyrir því að flokkurinn nái að koma markmiðum sínum á framfæri.

Það var að beiðni efri deildar þýska þingsins að málið kom til stjórnlagadómstólsins. Þýska ríkisstjórnin studdi beiðnina en tók ekki formlega þátt í málsókninni með þingdeildinni sem telur flokkinn stofna lýðræðinu í hættu. Tilraun til að fá dómstólinn til að banna NPD fór út um þúfur árið 2003 þegar dómararnir höfnuðu sönnunargögnum sem njósnarar yfirvalda öfluðu með því að lauma sér inn í flokkinn.

NPD er ekki með þingmann á ríkisþingi og á aðeins einn fulltrúa á Evrópuþinginu þar sem fylgi flokksins hefur nánast allt færst yfir til AfD, en sá flokkur er bæði á móti Evrópusambandinu og innflytjendum. Skoðanakannanir benda til þess að NPD er með 1% fylgi kjósenda í Þýskalandi en AfD er með 12-15%.

NPD (Nationaldemokratische Partei Deutschlands)var stofnaður árið 1964 en undanfari hans var annar nasistaflokkur, (Deutsche Reichspartei, DRP). Helsta stefnuyfirlýsing flokksins er: Þýskaland fyrir Þjóðverja. 

Stjórnlagadómstóll Þýskalands.
Stjórnlagadómstóll Þýskalands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert