Hvetur til „kynlífsverkfalls“

Mboko sagði kynlíf vera öflugt vopn og myndi hvetja karla …
Mboko sagði kynlíf vera öflugt vopn og myndi hvetja karla til þess að drífa sig að skrá sig. Sagði hún þó sinn eiginmann ekki þurfa að hafa áhyggjur þar sem hann er þegar skráður á kjörskrá. AFP

Þingkona í Kenía hefur hvatt konur í landinu til þess að neita eiginmönnum sínum um kynlíf þar til þeir hafa skráð sig á kjörskrá fyrir forsetakosningar í landinu sem fram fara 8. ágúst.

Mishi Mboko, sem er þingmaður flokksins ODM fyrir Mombasa, segir það bestu leiðina til þess að fá menn til þess að kjósa en ekki verður hægt að skrá sig eftir 17. febrúar.

Mboko sagði kynlíf vera öflugt vopn og myndi hvetja karla til þess að drífa sig að skrá sig. Sagði hún þó sinn eiginmann ekki þurfa að hafa áhyggjur þar sem hann er þegar skráður á kjörskrá.

Forseti Kenía, Uhuru Kenyatta, mun sækjast eftir endurkjöri í kosningunum og er beðið eftir því að hann fái mótframboð sem verður stutt af bandalagi stjórnarandstöðuflokkanna, m.a. flokks Mboko.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem konur í Kenía eru hvattar til þess að neita mönnum sínum um kynlíf. Árið 2009 fóru kvenkyns aðgerðarsinnar í landinu í vikulangt „kynlífsverkfall“ til þess að fá þáverandi forseta landsins og forsætisráðherrann til þess að sættast eftir átök í þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert