Neyðarástand vegna matareitrunar

Shawarma vefja undirbúin.
Shawarma vefja undirbúin. AFP

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa lýst yfir neyðarástandi í borginni Turabah vegna matareitrunar. Allt að 175 hafa veikst eftir að hafa borðað á veitingastað í borginni.

Ríkisfréttastofan segir að 150 hafi sýkst af matareitrun en vefmiðillinn Sabq, sem er nátengdur yfirvöldum, segir að 175 hafi veikst eftir að hafa borðað vefju (shawarma) sem er vinsæll skyndibiti í Mið-Austurlöndum.

Héraðsstjórinn í Mekka, Khaled al-Faisal prins, hefur fyrirskipað rannsókn þar sem sá sem ber ábyrgð verði látin sæta harðri refsingu.

Fram kemur að 45 sjúklingar séu undir eftirliti á sjúkrahúsinu í Turabah og 32 til viðbótar á öðrum heilbrigðisstofnunum.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa lagt mikla áherslu heilbrigðismál undanfarin ár og fjárfest mjög í málaflokkinum. Til að mynda fara 15% af útgjöldum ríkissjóðs, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins í ár, í heilbrigðis- og velferðarmál. Þar á meðal að byggja sjúkrahús og heilsugæslu í öllum héruðum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert