Átta á sjúkrahús eftir eldsvoða í Hróarskeldu

Spritfabrikkens-stúdentagarðarnir í Hróarskeldu.
Spritfabrikkens-stúdentagarðarnir í Hróarskeldu. bosj.dk

Átta voru fluttir á sjúkrahús eftir eldsvoða á stúdentagörðum í Hróarskeldu í nótt. Að sögn lögreglu er fólkið allt með reykeitrun en ekki er vitað á þessari stundu hversu alvarleg eitrunin er en þau eru til rannsóknar á Holbæk-sjúkrahúsinu. 

Henrik Møller Nielsen, varðstjóri í lögreglunni, segir að tilkynnt hafi verið um eldsvoðann klukkan 3:19 í nótt en um er að ræða Spritfabrikkens-stúdentagarðana sem eru við Møllehusvej 16. 

Um 100 manns búa á stúdentagörðunum og var íbúunum komið fyrir í íþróttahúsi í Hróarskeldu en þar var komið upp hjálparmiðstöð. Að sögn Nielsen eru átta íbúðir svo illa farnar að þær eru óíbúðarhæfar eftir eldsvoðann. Ekki liggur fyrir um eldsupptök en málið er rannsakað af lögreglu.

Tveir lögreglumenn voru einnig fluttir á sjúkrahús til rannsóknar vegna þess að þeir fengu reyk í lungun við að aðstoða íbúa hússins við að komast út úr brennandi húsinu.

Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert