Geri ekki Bretland að „afsláttakjallara“

Jeremy Corbyn var síður en svo hrifinn af ræðu May …
Jeremy Corbyn var síður en svo hrifinn af ræðu May í gær. AFP

Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, segir Theresu May hafa lítillækkað sjálfa sig, forsætisráðherraembættið og virðingu bresku þjóðarinnar með hótunum um að grafa efnahagslega undan Evrópusambandinu ef það gerir ekki fríverslunarsamning við Bretland þegar það gengur úr sambandinu.

Ummælin lét Corbyn falla á breska þinginu, þar sem hann hvatti forsætisráðherrann til að láta af hótunum um að gera Bretland að „afsláttakjallara“; skattaskjóli undan ströndum Evrópu. Sagði hann að þær kynnu að skaða Bretland meira en ríkin á meginlandinu.

Verkamannaflokkurinn hefur sakað ráðherra í ríkisstjórn May um að nota Brexit til að breyta breska hagkerfinu í hagkerfi þar sem laun eru lág og skattar á fyrirtæki sömuleiðis, og regluverkið lausofið.

Í ræðu sinni í gær staðfesti May að Bretland myndi yfirgefa hinn sameiginlega evrópska markað samhliða úrgöngu sinni úr Evrópusambandinu og freista þess að gera fríverslunarsamning við aðildarríkin 27 sem eftir verða.

May gaf í skyn að ef sambandið freistaðist til þess að refsa Bretum fyrir úrsögnina, myndu stjórnvöld í Lundúnum bregðast við með því að laða fyrirtæki yfir Ermasundið með því að lækka skatta á fyrirtæki og fjárfestingar; breyta grunni breska efnahagsmódelsins.

Corbyn sagði í samtali við Newsnight á BBC í gær að Bretar ættu ekki að stefna að því að fara í kapphlaup niður á botn hvað varðaði skatta á fyrirtæki, þar sem það myndi augljóslega koma niður á ríkiskassanum.

„Ef við sníðum okkur eftir Cayman-eyjum eða Bresku Jómfrúareyjum eða skattaskjólum umhverfis heiminn, hvar fáum við þá fjármuni í menntamálin, heilbrigðismálin, húsnæðismálin; allt það sem skiptir máli í lífi fólks?“

Theresa May sagði í gær að Bretland myndi yfirgefa hin …
Theresa May sagði í gær að Bretland myndi yfirgefa hin sameiginlega markað samhliða úrgöngu úr Evrópusambandinu. AFP

Á þinginu í dag ítrekaði May að hún vildi landa sem hagstæðustum fríverslunarsamningi, bæði fyrir Bretland og Evrópusambandið. Angus Robertson, þingmaður Skoska þjóðernisflokksins skaut hins vegar föstum skotum að forsætisráðherranum og sagði teikn á lofti um að 80.000 störf myndu tapast í Skotlandi ef Bretar yfirgæfu sameiginlega markaðinn.

„Telur ráðherrann að það sé gott verð fyrir Litla-Bretland Brexitinn hennar?“ spurði hann.

Þeir sem talað hafa hæst fyrir Brexit hafa verið kallaðir „einangrunarsinnar“ og þá valdi Die Welt fyrirsögnina „Litla-Bretland“ fyrir frétt sína um ræðu May.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert