Segjast hafa skotið hryðjuverkamann til bana

Bedúínaþorp í Negev-eyðimörkinni.
Bedúínaþorp í Negev-eyðimörkinni. AFP

Ísraelska lögreglan segist hafa skotið ísraelskan araba til bana en hann hafi verið hryðjuverkamaður. Segir lögreglan að hann hafi reynt að keyra á hana þegar hann mótmælti niðurrifi íbúðarbyggðar í suðurhluta Ísrael.

Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér kemur fram að maðurinn, sem búsettur er í þorpinu sem verið er að rífa niður þar sem byggðin sé ólögleg, hafi verið virkur í hreyfingu múslima í Ísrael og hafi jafnvel verið undir áhrifum frá vígasamtökunum Ríki íslams.

Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar hefur ekki verið greint frá því að lögreglan hafi slasast við atkvikið í bedúínaþorpinu Umm al-Heiran í Negev-eyðimörkinni.

Bætt við klukkan 7:28

Íbúar í Umm al-Heiran hafa aðra sögu að segja en að þeirra sögn ætlaði maðurinn sé aðeins að tala við fulltrúa yfirvalda á staðnum í þeirri von að hægt væri að fresta niðurrifinu. Hann hafi komið akandi á vettvang og verið skotinn af lögreglu. 

Ísarelski þingmaðurinn, Ayman Odeh, slasaðist á höfði eftir að hafa lent saman við lögreglu segir aðstoðarmaður þingmannsins sem var með honum á staðnum. Odeh er af arabískum uppruna.  

Raed Abu al-Qiyan, þorpsbúi í Umm al-Heiran segir að sá látni hafi heitið  Yacoub Abu al-Qiyan, og var bedúíni. Ekkert sé hæft í því að hann hafi tengsl við Ríki íslams.  

„Frásögn Ísraela er lygi. Hann er kennari,“ segir Qiyan í viðtali við AFP fréttastofuna og bætir við að hann hafi ekki verið í neinum tengslum við hreyfingar íslamista. „Hann var í bílnum sínum og þeir skutu á hann úr öllum áttum.“

Nú hefur lögregla greint frá því að lögreglumaður hafi slasast við atvikið án þess að útkýra nánar hvernig meiðsl hans eru og hvernig hann meiddist.

Ayman Odeh er þingmaður samsteypubandalags nokkurra flokka og er þriðji stærsti flokkurinn á ísraelska þinginu. Aðstoðarmaður hans, Anan Maalouf, segir  í viðtali við útvarpsstöð Ísraelshers að lögreglan hafi ráðist á mótmælendur og sprautað táragasi beint í andlit þeirra. Ekkert sé hæft í því að maðurinn hafi ætlað sér að gera árás. 

Ísraelsk yfirvöld rífa mjög oft byggðir bedúína og segja þær ólöglegar. Íbúar segja aftur á móti að nánast ógerningur sé að fá byggingarleyfi fyrir aðra en gyðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert