Skjálfa af kulda í jarðskjálftum

AFP

Jarðskjálftar hafa að undanförnu skekið miðbik Ítalíu en sá öflugasti átti sér stað upp úr klukkan níu í morgun. Á sama tíma hafa íbúar svæðisins glímt við miklar frosthörkur. Sama svæði varð fyrir fjölmörgum jarðskjálftum í ágúst á síðasta ári.

Jarðskjálftarnir í ágúst kostuðu tæplega 300 manns lífið en haft er eftir Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu, að skjálftahrinan nú virtist ekki hafa kostað neinn lífið. Skjálftanna var aðallega vart í þremur héruðum; Abruzzo, Lazio og Marche.

Mikil snjókoma á svæðinu undanfarinn einn og hálfan sólarhring hefur gert björgunarsveitum erfitt fyrir að komast á þá staði þar sem jarðskjálftarnir riðu yfir. Snjóflóðaviðvaranir hafa verið sendar út á sumum stöðum. Skólum hefur víða verið lokað.

Jarðskjálftanna var einnig vart í höfuðborginni Róm og hefur neðanjarðarlestakerfi borgarinnar meðal annars verið lokað af öryggisástæðum af þeim sökum. Fólk þorir hins vegar ekki að vera innandyra af ótta við skjálftana þó það sé mjög kalt utandyra.

„Það eru allir úti. Það er mjög kalt og vindasamt,“ er haft eftir Linu Mercantini, íbúa í þorpinu Ceselli sem er í um 80 kílómetra fjárlægð frá upptökum jarðskjálftans. Margir hafa þó einnig átt erfitt með að komast út úr húsum sínum vegna snjós.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert